Bjarkarhlíð verði þjónustumiðstöð fyrir þolendur ofbeldis

Mannlíf Mannréttindi

""

Þjónustumiðstöð fyrir þolendur ofbeldis tekur til starfa í Reykjavík í byrjun næsta árs. Viljayfirlýsing samstarfsaðila þess efnis var undirrituð í nýuppgerðu húsnæði miðstöðvarinnar í Bjarkarhlíð í Bústaðahverfi í dag. Borgin leggur til húsnæðið og kostar rekstur þess en velferðarráðuneytið veitir fé til reksturs starfseminnar.

Það voru Dagur B. Eggertsson borgarstjóri Reykjavíkurborgar, Eygló Harðardóttir félags- og húsnæðismálaráðherra, Ólöf Nordal innanríkisráðherra, lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu, ásamt fulltrúum Stígamóta, Drekaslóðar, samtaka um Kvennaathvarf, Mannréttindaskrifstofu Íslands og Kvennaráðgjafarinnar sem undirrituðu viljayfirlýsinguna. Áætlað er að þjónustumiðstöðin, sem fengið hefur nafnið Bjarkarhlíð, taki formlega til starfa í janúar næstkomandi.

Starfsemin í Bjarkarhlíð, mun felast í samhæfðri þjónustu og ráðgjöf fyrir fullorðna einstaklinga sem beittir hafa verið ofbeldi s.s. kynferðisofbeldi, ofbeldi í nánum samböndum eða eru brotaþolar í mansalsmálum og/eða vændi. Brotaþolum mun gefast kostur á stuðningi og ráðgjöf sem framangreindir aðilar veita ásamt öðrum samstarfsaðilum, þeim að kostnaðarlausu. Verkefnið er að hluta til byggt á erlendri fyrirmynd þar sem meginmarkmiðið er að brotaþolar fái, á einum stað, þá þjónustu sem á þarf að halda í kjölfar ofbeldis.

Framlag samstarfsaðila verður með ýmsum hætti en Reykjavíkurborg leggur til húsnæði, búnað og stendur straum af rekstrarkostnaði hússins vegna þessa. Velferðarráðuneytið ábyrgist ákveðið fjármagn til rekstrarins, 10 m.kr. á árinu 2016 og 20 m.kr. á hvoru ári árin 2017 og 2018. Þjónustan miðast við Reykjavík til að byrja með en gert er ráð fyrir aðkomu annarra sveitarfélaga að verkefninu þegar fram í sækir. Auk þess er gert ráð fyrir að fleiri samstarfsaðilar verði hluti af starfseminni með tímanum.

Við undirritunina sögðust samstarfsaðilar fagna því að þetta mikilvæga verkefni væri að verða að veruleika og að tilkoma Bjarkahlíðar marki tímamót í þjónustu við brotaþola ofbeldis.