Bjarkarhlíð miðstöð fyrir þolendur ofbeldis opnuð | Reykjavíkurborg

Bjarkarhlíð miðstöð fyrir þolendur ofbeldis opnuð

fimmtudagur, 2. mars 2017

Dagur B. Eggertsson borgarstjóri Reykjavíkurborgar, Þorsteinn Víglundsson félags- og húsnæðismálaráðherra, Sigríður Á. Andersen dómsmálaráðherra og Sigríður Björk Guðjónsdóttir lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu, voru viðstödd opnun Bjarkarhlíðar, miðstöðvar fyrir þolendur ofbeldis.

  • Starfshópurinn sem stóð að stofnun Bjarkarhlíðar ásamt ráðherrum, borgarstjóra og lögreglustjóra fyrir utan Bjarkarhlíð í dag. Allir fengu bjarkarhríslu að gjöf í tilefni áfangans.
    Starfshópurinn sem stóð að stofnun Bjarkarhlíðar ásamt ráðherrum, borgarstjóra og lögreglustjóra fyrir utan Bjarkarhlíð í dag. Allir fengu bjarkarhríslu að gjöf í tilefni áfangans.
  • Að lokinni formlegri opnun hvert með sína bjarkarhríslu sem þau fengu að gjöf í tilefni dagsins.. F.v. Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri, Sigríður Björk Guðjónsdóttir, lögreglustjóri, Sigríður Á. Andersen, dómsmálaráðherra og Þorsteinn Víglundsson, velferðarráðherra.
    Að lokinni formlegri opnun hvert með sína bjarkarhríslu sem þau fengu að gjöf í tilefni dagsins.. F.v. Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri, Sigríður Björk Guðjónsdóttir, lögreglustjóri, Sigríður Á. Andersen, dómsmálaráðherra og Þorsteinn Víglundsson, velferðarráðherra.
  • Bjarkarhlíð umvafin björkum við Bústaðaveg.
    Bjarkarhlíð umvafin björkum við Bústaðaveg.

Bjarkarhlíð er samstarfsverkefni Reykjavíkurborgar, velferðarráðuneytisins, innanríkisráðuneytis, Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, Samtaka um kvennaathvarf, Stígamóta, Drekaslóðar, Mannréttindaskrifstofu Íslands og Kvennaráðgjafarinnar. Um er að ræða þróunarverkefni til tveggja ára (2017-2019). Starfsemin mun verða rekin á dagvinnutíma frá 9:00 til 17:00 og í húsnæði Reykjavíkurborgar í Bjarkarhlíð við Bústaðaveg.

Verkefnið er að hluta til byggt á erlendri fyrirmynd þar sem meginmarkmiðið er að brotaþolar fái, á einum stað, þá þjónustu sem á þarf að halda í kjölfar ofbeldis. Starfshópurinn sem stóð að stofnun miðstöðvarinnar og borgarstjóri, ráðherrar og lögreglustjóri fengu öll bjarkarhríslu að gjöf frá Rögnu Björgu Guðbrandsdóttur verkefnastjóra Bjarkarhlíðar í tilefni opnunarinnar. Ragna Björg sagði að stofnun miðstöðvarinnar hefði tekist með góðri samvinnu allra aðila og vú væri hægt að fara að vinna af fullum krafti að því mikilvæga starfi sem miðstöðin á að sinna.

Starfsemin í Bjarkarhlíð, mun felast í samhæfðri þjónustu og ráðgjöf fyrir fullorðna einstaklinga sem beittir hafa verið ofbeldi s.s. kynferðisofbeldi, ofbeldi í nánum samböndum eða eru brotaþolar í mansalsmálum og/eða vændi.  Veitt verður fræðsla og umfjöllun um eðli og afleiðingar ofbeldis, auk námskeiða um birtingamyndir ofbeldis og afleiðingar þess,  þess að gefa skýr skilaboð um að ofbeldi verði ekki liðið.

Bjarkarhlíð hóf að kynna starfsemi sína í Febrúar sl. fyrir samstarfsaðilum og öðrum stofnunum sem vinna  með afleiðingar ofbeldis. Nú þegar hafa 9 mál komið á borð Bjarkarhlíðar og segir verkefnastjórinn Ragna Björg Guðbrandsdóttir að það sýni og sanni að þörf er á slíkri þjónustu. Það sem einkennir helst þau mál sem komið hafa er að ekki er um eitt afmarkað atvik að ræða heldur langvarandi og oft endurtekin saga um ofbeldi.

Framlag samstarfsaðila verður með ýmsum hætti en Reykjavíkurborg leggur til húsnæði, búnað og stendur straum af rekstrarkostnaði hússins. Velferðarráðuneytið ábyrgist ákveðið fjármagn til rekstrarins, 10 m.kr. á árinu 2016 og 20 m.kr. á hvoru ári árin 2017 og 2018. Vinnuframlag og viðvera verður frá Stígamótum, Drekaslóð, Kvennaathvarfi, Kvennaráðgjöf og Mannréttindaskrifstofu Íslands Auk þess sem Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu veitir upplýsingar um meðferð mála í réttarvörslukerfinu og kemur að mati á öryggi þolenda.

Gert ráð fyrir að fleiri samstarfsaðilar verði hluti af starfseminni með tímanum.