Bjarg og Búseti byggja yfir 150 íbúðir í Bryggjuhverfi

Skipulagsmál Framkvæmdir

""

Bjarg, íbúðafélag verkalýðshreyfingarinnar, og Búseti húsnæðissamvinnufélag fá lóðir fyrir 153 íbúðir í næsta áfanga í Bryggjuhverfinu. Bæði félögin eru óhagnaðardrifin húsnæðisfélög.

Borgarráð samþykkti á fundi sínum í dag að úthluta Bjargi íbúðafélagi tveimur lóðum og byggingarrétti í Bryggjuhverfi. Á lóðunum mun Bjarg hafa rétt til að byggja annars vegar 29 íbúðir og hins vegar 94 íbúðir, alls 123 íbúðir sem fara í langtímaleigu fyrir félagsmenn. Þá fékk Búseti sem er húsnæðissamvinnufélag úthlutað lóð og byggingarrétti fyrir 30 íbúðir á sama stað.

Bjarg íbúðafélag er óhagnaðardrifið leigufélag og sjálfseignarstofnun sem er ætlað að tryggja tekjulágum einstaklingum og fjölskyldum á vinnumarkaði, sem eru fullgildir félagsmenn aðildarfélaga ASÍ eða BSRB aðgengi að öruggu íbúðarhúsnæði í langtímaleigu. 

Bjarg fær úthlutað lóð að Tangabryggju 1 þar sem heimilt verður að byggja 29 íbúðir í sérstæðum byggingum. Bjarg skuldbindur sig til að framselja sex íbúðir á lóðinni til Félagsbústaða á kostnaðarverði.

Þá fær Bjarg úthlutað lóð og byggingarrétti að Tangabryggju 5 þar sem heimilt verður að byggja 94 íbúðir í sérstæðum byggingum á sameiginlegri lóð.       

Bjarg mun framselja Félagsbústöðum 18 íbúðir á lóðinni á kostnaðarverði.

632 íbúðir í uppbyggingu hjá Bjargi

Bjarg fjármagnar uppbygginguna m.a. með stofnframlögum frá Reykjavíkurborg og ríkinu sem veitt eru á grundvelli laga nr. 52/2016.

Bjarg er nú þegar með 248 íbúðir í byggingu í Reykjavík og munu fyrstu íbúarnir flytja inn í húsnæði félagsins við Móaveg í sumar. Í vor hyggst félagið hefja byggingu á 261 íbúð við Kirkjusand, Leirtjörn og Hraunbæ. Framkvæmdir við íbúðirnar 123 í Bryggjuhverfinu munu að öllum líkindum hefjast í haust að sögn Björns Traustasonar framkvæmdastjóra Bjargs. Samtals er Bjarg því með áform um 632 íbúðir sem fara í langtímaleigu til félagsmanna.

Búseti hefur einnig fengið úthlutað lóð og byggingarrétti fyrir 30 íbúðir í Bryggjuhverfi að Tangabryggju 5.

Búseti skuldbindur sig til að framselja tvær íbúðir á kostnaðarverði til Félagsbústaða.