Bílaþvottur við heimahús er ekki æskilegur

Umhverfi Heilbrigðiseftirlit

""

Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur fær á hverju ári ábendingar um mengun sem berst með ofanvatni í árnar, vötnin og strandsjóinn í Reykjavík. Eftirlitið vill upplýsa íbúa að bílaþvottur með efnum við heimahús er alls ekki æskilegur. Ekki ætti heldur að þrífa áhöld og tæki við heimahús til dæmis málningarpensla og þess háttar.

Fráveitukerfi borgarinnar

Fráveitukerfi borgarinnar er tvöfalt í nýrri hverfum sem reist voru eftir 1965. Fráveitukerfi höfuðborgarsvæðisins flytur allt skólp frá heimilum og fyrirtækjum í hreinsistöðvar. Öðru máli gegnir um ofanvatn. Ofanvatn er regnvatn og leysingarvatn sem rennur í fráveitur af húsþökum, götum, bílastæðum, gangstéttum og öðru þéttu yfirborði. Það fer í sérstak ofanvatnskerfi, fer ekki um hreinsistöð og er losað út í næsta viðtaka sem getur verið lækur, á eða strandsjór.

Hér að neðan er sem dæmi. Mynd af fráveitu í Foldakerfi og sjá má fjórar útrásir sem opnast út í Grafarvog.

Bláar örvar tákna ofanvatnskerfi en rauðar skólpkerfi

Engar settjarnir eru við þessar útrásir og því fer vatnið óhreinsað út í voginn og með því sápur, tjöruleysi og önnur hreinsiefni sem notuð eru við bílaþrif við heimahús.

Annað dæmi er frá Árbæ en á myndinni má sjá útrásir sem opnast út í Elliðaár.

Elliðaár - sýna sérstaka aðgát

Heilbrigðiseftirlitið vill sérstaklega benda á að ofanvatn frá hluta Breiðholts, Árbæjar, Ártúnshverfi og Fossvogs rennur í gegnum settjarnir og þaðan út í Elliðaár. Sérstaka aðgát þarf því að sýna á þeim svæðum. Elliðaárdalur og Elliðaár njóta hverfisverndar og þar er stunduð laxveiði sem er einsdæmi innan höfuðborga í Evrópu. Það er því afar mikilvægt að koma í veg fyrir að mengun berist í árnar og hafi áhrif á viðkvæmt lífríki þeirra.

Mengun hefur endurtekið borist í árnar og ljóst að svæðið er undir álagi. Ekki skal hella neinum efnum í niðurföll utandyra svo sem málningu, þynni, fitu eða olíu. Mikilvægt er að í ofanvatnslagnir fari engin efni sem geta skaðað lífríkið eða heilsu manna. Spilliefnum skal skila á Endurvinnslustöðvar.

Bílaþvottur

Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur beinir því til íbúa að bílaþvottur með efnum við heimahús er alls ekki æskilegur. Ryk mengað af þungmálmum, krabbameinsvaldandi efni og nanoefni geta komist út í náttúruna þegar bílar eru þvegnir. Heilbrigðiseftirlitið hvetur fólk til að nota minna af sápuefnum og þvo bílinn frekar á bílaplönum en heima við.

Notkun efnavöru er óæskileg út frá umhverfismálum. Efnin geta bæði verið skaðleg ef þau fara út í náttúruna og svo hefur framleiðsla þeirra umhverfisáhrif.

Fólk sem ætlar að þvo bílinn sinn ætti að hafa í huga að það er betra að þvo hann á þvottaplani heldur en heima því þar eru síur sem taka við óæskilegum efnum.

Reglurnar eru þessar

  1. Þvo bílinn á bílaþvottastöð eða -plani þar sem frárennslisvatn er að einhverju leyti hreinsað eða efni af bílum skolast frá og eru meðhöndluð sem spilliefni. Óæskileg efni eiga að fara í frárennsli þar - en ekki í afrennsli heima á bílaplaninu sem fer beint í ofanvatn án hreinsunar.
  2. Sleppa hreinsiefnum eins og hægt er eða
  3. Nota umhverfisvottuð hreinsiefni, bón og aðrar vörur til þvotta á bílnum.

Viturlegt er að leita að umhverfismerktum þvottaefnum t.d. Svansmerktum og æskilegt væri að rekstraraðilar sæju sér hag í að starfrækja umhverfisvottaðar bílaþvottastöðvar og plön.

Tenglar

Endurvinnslustöðvar

Þvottur bifreiða