Betur gengur að ráða fólk

Skóli og frístund

""

 38 leikskólar af 62 í borginni eru fullmannaðir nú í lok janúar. Einn til tvo starfsmenn vantar í 20 leikskóla og í fjórum skólum er óráðið í 2-3 stöður. 

Vel hefur gengið að ráða starfsfólk á leikskólana í janúar. Í byrjun mánaðarins voru 46 stöðugildi ómönnuð, en nú vantar starfsfólk í rúm 28 stöðugildi í til að þjóna þeim börnum sem eru á leikskólunum eða hefur verið boðið pláss. Ef nýta ætti öll laus pláss sem eru í leikskólum borgarinnar þarf að ráða í 16 stöðugildi til viðbótar. Til samanburðar þá vantaði í ágúst starfsfólk í 132 stöðugildi hjá leikskólunum. Enn vantar þó 2 deildarstjóra, 14 leikskólakennara, 8 stuðningsfulltrúa og 5 aðra starfsmenn. Þetta er um 1,95% allra stöðugilda í leikskólum borgarinnar.

Í grunnskólana vantar ellefu starfsmenn, þar af 4  kennara, 4  stuðningsfulltrúa og 3 skólaliða. Þetta er undir einu prósenti allra stöðugilda í 34 grunnskólum borgarinnar. Alls var óráðið í um 25 stöðugildi hjá grunnskólunum í byrjun skólaársins.

Í frístundaheimili/sértækar félagsmiðstöðvar vantar 56 starfsmenn í hálfar stöður, þar af 9 í starf með fötluðum börnum og ungmennum. Vel hefur gengið að ráða það sem af er ári, en 70 starfsmenn vantaði í hálf störf í byrjun desember og meira en eitt hundrað í byrjun skólaársins.

17 frístundaheimili eru fullmönnuð, eða um 40% þeirra. Á 23 frístundaheimili er óráðið í 1-1,5 stöður eða um 53% allra í borginni. 2-3 starfsmenn vantar á tvö frístundaheimili/sértækar félagsmiðstöðvar  og 5 starfsmenn á eina sértæka félagsmiðstöð fyrir fötluð börn og ungmenni.  

Meira en 90% starfsstöðva skóla- og frístundasviðs eru nú ýmist fullmannaðar eða leitar að 1-2 starfsmönnum. 

Í vetur hefur verið gripið til fjölmargra aðgerða til að manna störf á skóla- og frístundasviði. Sjá minnisblað þar um.