Betra aðgengi í Hólabrekkuskóla

Mannréttindi

""

Miklar framkvæmdir hafa verið í Hólabrekkuskóla til að bæta aðgengi og aðstöðu þar fyrir fatlað fólk. Sett hefur verið upp sjálfvirk rafmagnsopnun á hurð við aðalinngang skólans, ný lyfta verið tekin í notkun, skábraut var sett upp í matsal auk þess sem aðgengilegt salerni og sturtuaðstaða var sett upp í einni álmu skólans.

Ferlinefnd fatlaðs fólks í Reykjavík fundaði í skólanum til að fagna áfanganum og skoða aðstæður.  Ferlinefndin er skipuð sjö fulltrúum en Öryrkjabandalag Íslands tilnefnir þrjá í nefndina, Þroskahjálp einn og Félag eldri borgara í Reykjavík einn. Tveir fulltrúar eru kjörnir af borgarstjórn.

Nefndarfulltrúar gengu um skólann og skoðuðu framkvæmdir og bentu á möguleika til að bæta aðgengi enn betur.  Ferlinefndin leggur til fjármagn vegna framkvæmdanna en hlutverk hennar er að fjalla um aðgengismál í húsnæði á vegum borgarinnar sem og borgarlandi og leggur til lausnir í aðgengismálum.

„Það er virkilega gaman að sjá hvernig til hefur tekist í Hólabrekkuskóla og það hvetur okkur til að gera betur á fleiri stöðum innan borgarinnar. Bætt aðgengi nýtist öllum,“ segir Magnús Már Guðmundsson borgarfulltrúi og formaður ferlinefndar.  “Hér á árum áður var oft lítið eða ekkert tillit tekið til ólíkra aðgengisþarfa borgarbúa. Fyrir vikið er nokkuð um það að húsnæði í eigu borgarinnar er óaðgengilegt ýmsum hópum. Sem betur hefur mikið breyst síðustu árum og hugarfarið er annað.“

Magnús Már segir að Reykjavíkurborg hafi undanfarin ár reynt að bæta úr þessu þar sem hægt hefur verið að koma því við. Sumt kosti lítið en hefur mikil áhrif á meðan annað krefst talsverða fjármuna enda stundum flókið að lagfæra eða breyta eldra húsnæði eftir á. Þess vegna sé brýnt að vanda strax til verka í nýframkvæmdum. „Við í ferlinefndinni höfum reynt að nýta vel þá fjármuni sem til staðar eru og ráðast í framkvæmdir sem nýtast strax,“ segir Magnús Már.

Hólmfríður G. Guðjónsdóttir, skólastjóri Hólabrekkuskóla segir það hafa verið mjög lærdómsríkt að fá ferlinefndina til að taka út framkvæmdirnar, og benda á ýmislegt annað sem bæta myndi aðgengi innan skólans og á skólalóðinni. „Það er margt sem má gera enn betra með einföldum lausnum.  Þessar ábendingar frá fulltrúum Öryrkjabandalagsins og Þroskahjálpar eru reglulega hjálplegar og við munum sannarlega hafa þær í huga til að gera skólann okkar enn betri og aðgengilegri,“ segir Hólmfríður.