Bátar sjöttu-bekkinga prufukeyrðir á Tjörninni

Æfing fyrir Bátaleikana

Krakkar úr 6. bekk Vesturbæjarskóla létu reyna á báta sem þau smíðuðu, á Tjörninni við Ráðhús Reykjavíkur, í dag. Þau taka þátt í Bátaleikunum ásamt Ingunnarskóla og Selásskóla, gera myndband um ferlið sem liggur að baki smíðinni, og deila svo reynslunni þegar öllu er lokið. Eftir prufukeyrsluna í dag skráðu börnin niður hvað betur mætti fara varðandi stöðugleika og almenna siglingarhæfni bátanna.

Þurfa að finna lausnir á tæknilegum vandamálum

„Prufan gekk vel, allir bátar flutu en svo þarf að finna út úr tæknilegum vandamálum,“ segir Agla Ástbjörnsdóttir umsjónarkennari í 6. bekk Vesturbæjarskóla. Bátarnir þurfa ekki aðeins að geta flotið heldur er markmiðið að þeir komist 300-350 metra án rafmótors. Agla segir þau nota teygjur og ýmislegt annað til að trekkja upp bátana. Lokakeppnin í Vesturbæjarskóla verður svo í lok maí og mun veður ráða talsverðu um hvaða dagur verður fyrir valinu. Þó veður hafi verið gott í dag, reyndist nokkur áskorun hversu lygnt var.

Bátaleikarnir eru STEM áskorun sem ætlað er að örva rökhugsun með hönnun, þrautalausnum og sköpun. Börnin hafa fengið frjálsar hendur um það hvernig þau standa að smíðinni en báturinn þarf að vera umhverfisvænn og þurfti því að huga að umhverfisáhrifum hönnunarinnar. Hönnunin fór í gegnum ferli þar sem þau byrjuðu á að spyrja spurninga, hugsa, skipuleggja, byggja, prófa og laga. Enginn bátur var alveg eins og annar. Agla segir miklar reynslu fólgna í að prufa til að bæta um betur. Eins reyndi á samvinnu því börnin unnu í hópum, tvö til þrjú saman.