Barnavernd fær aukafjárveitingu

Velferð

""

Borgarráð hefur samþykkt að veita aukalega 40 milljónum til að styrkja starfsemi Barnaverndar Reykjavíkur. Þá var einnig samþykkt að taka þátt í tilraunaverkefni á vegum ríkisins um nýtt langtímaúrræði fyrir unglinga en þar er kostnaður borgarinnar áætlaður um 26 mkr. á þessu ári.

Í samþykkt borgarráðs kemur fram að stöðugildum hjá Barnavernd Reykjavíkur verður fjölgað og starfsumhverfi styrkt með margvíslegum hætti. Frekari aðgerðir til styrktar barnaverndarstarfi í Reykjavík munu taka mið af úttekt sem fer fram um þessar mundir á vegum Capacent og RR ráðgjafar. Um er að ræða umfangsmikla greiningu sem tekur til skipulags alls barnaverndarstarfs á vegum Reykjavíkurborgar á grundvelli félagsþjónustu og barnaverndarlaga. Meðal annars er horft til þeirra stuðningsúrræða og þjónustu sem boðið er upp á, hvernig úrræðin eru nýtt og hvernig aðgengi er að þeim. Markmiðið er að bæta bæði þjónustu og starfsumhverfi barnaverndar.

Útgjöld Reykjavíkurborgar til barnaverndarmála hafa nær tvöfaldast frá árinu 2010, farið úr 787 mkr. í 1.425 mkr. á árinu 2017. Árlegur fjöldi tilkynninga til Barnaverndar Reykjavíkur er rúmlega fjögur þúsund. Málin hafa þyngst á undanförnum árum, úrskurðum hefur fjölgað, fleiri mál fara í könnun og fjöldi barna sem fara í vistun eða fóstur hefur aukist. Tilkynningum sem tengjast áhættuhegðun barna hefur fækkað í Reykjavík eins og á landinu öllu síðustu ár. Mál sem tengjast ofbeldi og vanrækslu foreldra hefur fjölgað mikið, en í nær helmingi þeirra eiga foreldrar við fíknivanda að stríða.

Aukið samstarf við lögreglu með verkefninu Saman gegn ofbeldi hefur einnig kallað á fleira starfsfólk. Annar álagsþáttur er skortur á úrræðum, til dæmis í málefnum barna með alvarlegar geð- og þroskaraskanir.

Ungmenni í vímuefnavanda

Borgarráð samþykkti einnig að ganga til samstarfs við velferðarráðuneytið um nýtt langtímaúrræði fyrir ungmenni sem eiga í langvarandi erfiðleikum vegna vímuefnaneyslu. Ráðuneytið vinnur nú að því að koma á fót búsetuúrræði fyrir ungt fólk sem hefur lokið meðferð á meðferðarstofnunum Barnaverndarstofu og þarf stuðning til að fóta sig á ný í lífinu. Um er að ræða heimili fyrir þrjú ungmenni.

Tilkynningar til Barnaverndarstofu

Barnavernd Reykjavíkur fær um 45% tilkynninga vegna barnaverndarmála á landsvísu en í Reykjavík búa tæplega 37% íbúa landsins.  Barnaverndarstofa hefur eftirlit með starfsemi barnaverndarnefnda á landinu. Í ársskýrslu Barnaverndarstofu árið 2016 var hlutfall mála sem kvartað var yfir við Barnaverndarstofu vegna Barnaverndar Reykjavíkur 13,5% á landsvísu eða 5 af samtals 37 málum. Á tímabilinu 2012-2016 var hlutfall mála sem kvartað var yfir til Barnaverndarstofu vegna Barnaverndar Reykjavíkur 29% á landsvísu eða 49 af samtals 169 málum.

Frá árinu 2015 hefur barnaverndarnefnd Reykjavíkur unnið eða gert dómsáttir þar sem kröfur nefndarinnar hafa náð fram að ganga í 46 af 48 málum.