Barnaþing á Alþjóðadegi barna

Skóli og frístund Velferð

""

Fleiri hundruð börn tóku þátt í barnaþingum í dag í tilefni Alþjóðadags barna. Á barnaþingi í Þróttara og Fram heimilinu fjölluðu þrjú hundruð 6. bekkingar í grunnskólum Laugardals og Háaleitis um það hvernig tæknin hefur áhrif á líf þeirra.  Í Laugarnesskóla þinguðu nemendur 1.-5. bekkjar um  líðan einelti, öryggi og umhverfismál en þar leiddu nemendur í 6. bekk hópavinnuna.

Snjallvera

Nemendur í 6. bekk frá sex grunnskólum í Laugardal og Háaleiti þinguðu á tveimur stöðum, Fram og Þróttara heimilinum. Þau þinguðu um hvaða áhrif tæknin hefur á líf þeirra.

Á þinginu tóku nemendur þátt í umræðum með þjóðfundarfyrirkomulagi þar sem nemendur sátu saman við borð og ræddu málin. Sem kveikju að umræðum fengu þau fyrirlesturinn Vertu snjall/snjöll um snjalltæknanotkun frá SAFT. Gunnar Svanbergsson sjúkraþjálfari ræddi um líkamsbeitingu og lýsti m.a. snjalltækjakryppu en hann lagði áherslu á það hvernig hægt er að vernda hrygginn.  Börnin unnu á 15 borðum og var hvert borð með sitt umræðuefni en fjallað var m.a. um stafrænan útivistartími, samskipti á netinu, tækni í skóla, stafræn fótspor, áhrif snjalltækja á heilsu, netið og samfélagsmiðlar,

Markmið þingsins var að efla vitund barna um ábyrgð þeirra á eigin heilsu og velferð. Veita börnum tækifæri til að koma skoðunum sínum á framfæri og þjálfa þau í lýðræðislegum aðfergum og félagsfærni.

Yfirumsjón og úrvinnsla barnaþings er í höndum framkvæmdaráðs Forvarnar-og heilsuteymis ÞLH. Foreldraþorpið sem er samstarfsvettvangur foreldra í hverfunum.

Mikilvægi og réttindi barna

Í Laugarnesskóla þinguðu öll börn í 1.-5. bekk um réttindi barna, líðan barna, einelti, öryggi, mengun, matarsóun í skólum og hreint vatn. Bekkjarkerfið er lagt niður á meðan á þinginu stendur og nemendur í 1.-6. bekk vinna saman.  Í hverjum umræðuhóp eru börn í 1.-5. bekk en nemandi úr 6. bekk leiðir hópinn og gætir þess að allir fái tækifæri til að leggja umræðunni lið.

Lýðræðisleg vinnubrögð með börnum er ekki nýtt fyrir Laugarnesskóla en hann er fyrsti skólinn í Reykjavík sem gert hefur samkomulag við UNICEF á Íslandi um að vera réttindaskóli.  Réttindaskóli er hugmyndafræði fyrir skóla- og frístundastarf sem tekur mið af Sáttmála Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins og miðar að því að auka virðingu, vernd og innleiðingu mannréttinda.

Í skólanum er Vinaliðaverkefni en það þýðir að tveir nemendur úr hverjum 4. - 6. bekk eru valdir af nemendum til að vera vinaliðar.  Vinaliðar leiða leiki  og verkefni í frímínútum en auk þess að vera með dagskrá gæta þau þess að enginn sé skilinn eftir útundan. Vinaliðar starfa bæði inni og úti á skólalóðinni og ræðst það mest af veðri hvort er vinsælla hjá nemendum.