Barnasáttmálinn grundvöllur alls skóla- og frístundastarfs | Reykjavíkurborg

Barnasáttmálinn grundvöllur alls skóla- og frístundastarfs

miðvikudagur, 23. maí 2018

Skóla- og frístundasvið Reykjavíkurborgar og UNICEF hafa gengið til formlegs samstarfs um að innleiða hugmyndafræði Réttindaskólans í allt skóla- og frístundastarf borgarinnar. Samningur þess efnis var undirritaður á dögunum.

  • Helgi Grímsson sviðsstjóri skóla- og frístundasviðs og Bergsteinn Jónsson framkvæmdastjóri UNICEF á Íslandi
    Helgi Grímsson sviðsstjóri skóla- og frístundasviðs og Bergsteinn Jónsson framkvæmdastjóri UNICEF á Íslandi undirrituðu samstarfsyfirlýsinguna
  • Réttindaráðið í Lauganesskóla ásamt borgarstjóra og fulltrúum UNICEF á Íslandi.
    Réttindaráðið í Lauganesskóla ásamt borgarstjóra og fulltrúum UNICEF á Íslandi.
  • Fulltrúi í réttindaráði Laugalækjarskóla í ræðustól þegar skólinn fékk viðurkenningu UNICEF sem Réttindaskóli.
    Fulltrúi í réttindaráði Laugalækjarskóla í ræðustól þegar skólinn fékk viðurkenningu UNICEF sem Réttindaskóli.

Í samkomulaginu felst að allir skólar og starfsstaðir á vettvangi frítímans muni nota ákvæði Barnasáttmálans sem viðmið í sínu fagstarfi og að forsendur sáttmálans séu leiðarstef í allri starfsemi þeirra. Unnið verður að innleiðingu í skrefum eftir áherslum og aðstæðum á hverjum stað og  Barnasáttmálinn nýttur sem gæðastjórnunarverkfæri í stefnumótun og þjónustu með tilliti til barna og réttinda þeirra. UNICEF mun veita starfsstöðum skóla- og frístundasviðs stuðning við að innleiða þetta verkefni með fræðslu og ráðgjöf.

Samkomulag UNICEF við skóla- og frístundasvið byggir m.a. á tillögum starfshóps um aukið lýðræði barna og ungmenna frá árinu 2016. Síðastliðin tvö ár hafa Laugarnesskóli, frístundaheimilin Laugasel og Dalheimar, ásamt Laugalækjarskóla og félagsmiðstöðinni Laugó unnið að því að innleiða vinnulíkan Réttindaskólans og öðlast viðurkenningu UNICEF.

Þeir skólar, frístundaheimili og félagsmiðstöðvar sem vinna samkvæmt vinnulíkani Réttindaskólans byggja upp lýðræðislegt umhverfi og rækta með markvissum hætti þekkingu, leikni og viðhorf sem hjálpa börnum að verða gagnrýnir, virkir og hæfir þátttakendur í nútíma samfélagi.