Barnamenningarhátíð í Reykjavík hefst 25. apríl – yfir 150 viðburðir

föstudagur, 21. apríl 2017

Barnamenningarhátíð í Reykjavík verður sett í sjöunda sinn þriðjudaginn 25. apríl kl. 11 með gleðihátíð í Hörpu. Viðburðir Barnamenningarhátíðar standa í sex daga og fara fram í öllum hverfum borgarinnar.

 • Barnamenningarhátíð 2016, ljósmyndari Roman Gerasymenko
  Barnamenningarhátíð 2016, ljósmyndari Roman Gerasymenko
 • Barnamenningarhátíð í Hörpu, ljósmyndari Ragnar Th. Sigurðsson
  Barnamenningarhátíð í Hörpu, ljósmyndari Ragnar Th. Sigurðsson
 • Barnamenning í Hörpu, ljósmyndari Berghildur Erla Bernharðsdóttir
  Barnamenning í Hörpu, ljósmyndari Berghildur Erla Bernharðsdóttir
 • Barnamenningarhátíð, ljósmyndari Roman Gerasymenko
  Barnamenningarhátíð, ljósmyndari Roman Gerasymenko

Barnamenningarhátíð í Reykjavík verður sett í sjöunda sinn þriðjudaginn 25. apríl kl. 11 með gleðihátíð í Hörpu. Viðburðir Barnamenningarhátíðar standa í sex daga og fara fram í öllum hverfum borgarinnar. Hátíðin er ein sú umfangsmesta á vegum borgarinnar og undirstrikar mikilvægi barna í mótun borgarmenningar. Viðburðir eru yfir 150 og eru skipulagðir af listafólki, mennta-, frístunda og menningarstofnunum, ungmennum og öðrum sem starfa fyrir og með börnum.  

Umhverfi og náttúran
Þema Barnamenningarhátíðar í ár er umhverfið og náttúran og af því tilefni var fjórðu bekkingum í Reykjavík boðið að vinna lag með tónlistarkonunni Sölku Sól um viðfangsefnið.  Börnin unnu verkefni í skólunum sem fólst í að svara spurningunni Hvað getum við gert til að vernda jörðina? Hugmyndir þeirra urðu síðan að innleggi í texta við lag tónlistarkonunnar. Salka Sól og um 1.600 krakkar í fjórða bekk frumflytja svo hátíðarlagið Ekki gleyma á opnunarviðburðinum í Eldborg. Titillinn er vísun í að gleyma ekki að hugsa um jörðina. Lagið er verkefni Barnamenningarhátíðar, Sorpu og Reykjavíkur bókmenntaborgar UNESCO.

Dagskráin í Hörpu
Dagur B. Eggertsson borgarstjóri setur hátíðina í Hörpu í samstarfi við börnin í salnum og stendur dagskráin fram á kvöld. Meðal viðburða er lúðrablástur, atriði úr leikritinu Bláa hnettinum, listdans, hipphoppdans, rapparinn Ljúfur Ljúfur flytur Orðbragslagið og hver veit nema að spennandi leynigestur láti sjá sig. Aðrir viðburðir opnunardagsins eru Eniga Meniga á vegum Tónskóla Sigursveins þar sem um 700 leikskólabörn flytja lög Ólafs Hauks Símonarsonar. Upptaktur, tónsköpunarverðlaun barna, fer fram í Kaldalónssalnum og deginum lýkur í Eldborg þar sem Félag íslenskra listdansara fagnar 70 ára framlagi til dansuppeldis með glæsilegri dansveislu.

Fjölbreytt dagskrá í ár
Dagskrá Barnamenningarhátíðar er afar fjölbreytt í ár og má þar nefna hæfileikakeppnina  Reykjavík hefur hæfileika sem verður haldin í Austurbæjabíó 26. apríl. Ráðhúsið breytist í  Ævintýrahöll helgina 29.-30. apríl en þar verður m.a. hægt að stunda fjölskyldujóga og sjá sýningu með Sirkusi Íslands, hlusta á jazz og dansa við taktfasta tónlist. Dagskrá Borgarbókasafnsins er fjölbreytt en þar verður m.a. hægt að taka þátt í sendibréfasmiðju og grímuleikum. Í Borgarsögusafni verður hægt að fræðast um húsdýr víkinganna og kynnast verum himins og hafs. Á Listasafni Reykjavíkur verður m.a. hægt að fara á teikninámskeið, listsmiðjur og spunanámskeið.
Hægt verður að fylgjast með viðburðum hátíðarinnar á KrakkaRÚV þar sem ungir fréttamenn úr 8.-10. bekk sinna fréttamiðlun. Um er að ræða samstarf hátíðarinnar og KrakkaRÚV.

Æskan tekur yfir Facebook
Þegar Barnamenningarhátíð er í vændum taka börnin yfir í borginni en jafnframt á Facebook. Að þessu sinni hvetur stjórn Barnamenningarhátíðar alla til að birta barna- eða unglingamyndir af sér og myllumerkja #barnamenning #barnamenningarhatid.
Barnamenning verður einnig í hávegum höfð í öðrum sveitarfélögum á höfuðborgarsvæðinu á næstu dögum og vikum. Í Kópavogi, Hafnarfirði, Mosfellsbæ og á Seltjarnarnesi verður boðið upp á fjölda viðburða tengda barna- og unglingamenningu.

Barnamenningarhátíð er þátttökuhátíð skipulögð af Höfuðborgarstofu og verkefnastjóra barnamenningar í Reykjavík. Með hátíðinni skapast vettvangur fyrir menningu barna, menningu með börnum og menningu fyrir börn.

Bæklingur Barnamenningarhátíðar