Barnamenningarhátíð - fjölbreytt viðburðaveisla!

Barnamenningarhátíð í Hörpu

Barnamenningarhátíð í Reykjavík verður haldin 5.-10. apríl. Hátíðin er ein sú umfangsmesta á vegum borgarinnar og á henni fá börn og barnamenning stóran sess í menningarsenu borgarinnar í sex daga.

Vettvangur hátíðarinnar er borgin öll og fara fjölbreyttir viðburðir fram í menningarstofnunum, grunnskólum, leikskólum, frístundamiðstöðvum og víðar. Í ár býður Úlfarsárdalur heim og verður Ævintýrahöllin í Borgarbókasafninu Úlfarsárdal þar sem boðið verður upp á fjölbreytta dagskrá fyrir börn og fjölskyldur þeirra. 

Frítt er inn á alla viðburði og þannig er aðgengi að menningu barna, með börnum og fyrir börn opnað öllum.

Fjölbreytt dagskrá Barnamenningarhátíðar 2022

Fjöldinn allur af leiksýningum, krakkakarókí, dans, myndlistarsýningar og smiðjur eru meðal þess sem boðið verður upp á. Kynnið ykkur dagskrána, viðburðir af öllum stærðum og gerðum fyrir alla fjölskylduna. Hér eru nokkur dæmi:

 • Opnunarhátíð og lag Barnamenningarhátíðar 2022
  Opnunarviðburður hátíðarinnar fer fram í Eldborg þriðjudaginn 5. apríl, kl. 10:00 og aftur kl. 12:15. 
  Fjórðu bekkingar borgarinnar verða viðstaddir opnunarviðburðina og flytja lag hátíðarinnar, Þriggja tíma brúðkaup, ásamt JóaPé og Króla, en lagið er samstarfsverkefni barnanna og þessara ástsælu tónlistarmanna. Texti lagsins er unninn alfarið upp úr hugmyndum barnanna um hvað veldur gleði hjá þeim sjálfum, öðrum og fyrir heiminn.
 • Miðvikudagur 6. apríl kl. 10:00 – List tengd lífríki sjávar
  Borgarstjóri opnar sýninguna List tengd lífríki sjávar í Sjóminjasafninu. Nemendur í nokkrum grunnskólum hafa rannsakað lífríki sjávar og skapað listaverk út frá viðfangsefninu. Sýningin er hluti af fleiri sýningum tengdar LÁN – listrænt ákall til náttúrunnar.
 • Fimmtudagur 7. apríl kl. 17:00 – Hinsegin karnival í Hafnarhúsi
  Hinseginfélag félagsmiðstöðvarinnar Frosta stendur fyrir skemmtilegu karnivali þar sem við fögnum fjölbreytileikanum og skemmtum okkur saman. Lalli Töframaður kemur fram, partý-karókí og candyfloss verður í boði. Öll fjölskyldan velkomin!
 • Föstudagur 8. apríl kl. 15:00 - Guðríðarkirkja
  Nemendur í 5. og 6. bekk Ingunnarskóla flytja á skapandi hátt frumsamið atriði sem unnið er út frá Heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna.
 • UNGI – Sviðslistahátíð fyrir unga áhorfendur
  UNGI, sviðslistahátíð ASSITEJ, býður börnum og fjölskyldum þeirra á fjölda innlendra og erlendra leiksýninga. Þar er að finna frábæra viðburði á borð við Krakkabarinn, námskeið leiklistarskóla Borgarleikhússins og skuggabrúðunámskeið ásamt æðislegum sýningum á borð við 50 Dangerous things, Plastikman og Hunden bakom mannen.
 • Ævintýrahöllin í Úlfarsárdal 9.–10. apríl
  Fjölbreytt dagskrá alla helgina. Þar verður byrjað á fjölskyldujóga á laugardagsmorgni og endað á krakkareifi seinnipart sunnudagsins. Inn á milli verða upplestrar úr barnabókum, dragstund, smiðjur, sundballett, trúðasýningar, tónleikar, krakkakarókí og endalaust margt fleira.

Mamma, pabbi, afi, amma og öll hin eru hvött til að nýta þetta einstaka tækifæri og njóta barnamenningar með börnunum á Barnamenningarhátíð. Góða skemmtun!

Kynntu þér dagskrá Barnamenningarhátíðar á www.barnamenningarhatid.is