Barnamenningarhátíð 2022

Mannlíf Menning og listir

Frá Barnamenningarhátíð 2022

Barnamenningarhátíð er ein af borgarhátíðum Reykjavíkurborgar og er orðin lykilþáttur í starfi með börnum í grunnskólum borgarinnar. Út er komin skýrsla um hátíðina sem haldin var í ár.

Barnamenningarhátíð er er sterkt innlegg í menningaruppeldi barna og eykur á sýnileika barnamenningar í borgarumhverfinu. Börn og fjölskyldur geta notið dagskrár hátíðarinnar óháð félagslegri stöðu því frítt er inn á alla viðburði.

Alls bárust 70 umsóknir um styrk í viðburðapott hátíðarinnar, töluvert fleiri en undanfarin ár,og hlutu 60 verkefni brautargengi. Rúmlega helmingur umsóknanna kom frá aðilum úr grunn-, leik- og frístundastarfi í Reykjavík, 10% frá menningarstofnunum og afgangurinn frá sjálfstæðum hópum og einstaklingum. Voru þessi verkefni uppistaðan í dagskrá hátíðarinnar.

Fjölbreytt dagskrá um alla borg

Opnunaratriði Barnamenningarhátíðar fer ávallt fram í Hörpu þar sem fjölbreytt dagskrá er í boði. Hátíðin teygir svo arma sína út í öll hverfi Reykjavíkur. UNGI - sviðslistahátíð fyrir unga áhorfendur var með tæplega 30 sýningar og viðburði í Norræna húsinu, Tjarnarbíói, Dansverkstæðinu, Borgarleikhúsinu og úti í grunnskólum borgarinnar. LÁN - Listrænt ákall til náttúrunnar var með metnaðarfullar sýningar á verkum 2895 barna úr 14 grunn- og leikskólum. Sýningarnar fóru fram á 7 mismunandi stöðum: Borgarbókasafni Grófinni og Spönginni, Grasagarði Reykjavíkur, Listasafni Íslands - Safnahúsi, Náttúruminjasafni Íslands, Perlunni og Sjóminjasafninu í Reykjavík.

Aðrir árlegir viðburðir á Barnamenningarhátið eru Upptakturinn, leikskólaviðburður Tónskóla Sigursveins sem að þessu sinni tók fyrir lögin hans Ladda, og dansviðburðir FÍLD (Félag íslenskra listdansara) eru orðnir ómissandi hluti af hátíðinni. BIG BANG tónlistarhátíð fyrir unga áheyrendur fór fram í fyrsta skipti 21. og 22. apríl þetta árið. Vonir standa til að hún verði hluti af Barnamenningarhátíð næstu árin.

Ævintýrahöllin vel sótt í Úlfarsárdal

Ævintýrahöllin var haldin dagana 9. og 10. apríl í Borgarbókasafni í Úlfarsárdal. Þar var fjölbreytt dagskrá fyrir börn og fjölskyldur þeirra sem var sérlega vel sótt þetta árið. Talið er að um 3000 manns hafi komið á dagskrána og í sund þessa daga en það var frítt fyrir fullorðna í fylgd með börnum í laugina yfir þessa helgi. Mikil ánægja var meðal íbúa í Úlfarsárdal og Grafarholti með að Ævintýrahöllin væri haldin í þeirra heimabyggð. Ljóst er þó að fjöldi fólks úr öðrum hverfum borgarinnar lagði leið sína uppeftir. Borgarbókasafnið í Úlfarsárdal hélt sérlega vel utan um þessa dagskrá. Lagt var upp með að höfða til fjölbreyttra þjóðfélagshópa í dagskrárgerð, t.d. með viðburðum á ýmsum tungumálum, tengdum hinseginleika og á stöðum með góðu aðgengi. Í kynningarmálum var sérstök áhersla lögð á að ná til erlendra íbúa borgarinnar.