Barnabókamessa og aukið fjármagn til bókakaupa

Menning og listir Skóli og frístund

""

Á komandi hausti verður í annað sinn haldin Barnabókamessa fyrir skólastjórnendur í samstarfi við Reykjavík Bókmenntaborg UNESCO og Félag íslenskra bókaútgefenda.

Markmiðið er að kynna nýútkomnar íslenskar barna- og unglingabækur og veita skólunum kost á hagkvæmum bókainnkaupum. 

Á Barnabókamessu í nóvember fá fulltrúar skólanna tækifæri til að kynna sér nýjar bækur og ræða við höfunda og útgefendur. Þeir geta svo keypt bækur fyrir bókasöfn sinna starfsstaða á sérstöku kynningarverði. Skóla- og frístundasvið leggur fram alls 9 milljóna króna fjárveitingu til bókakaupa.

Á árinu 2017 gengu skóla- og frístundasvið og Félag íslenskra bókaútgefenda til samstarfs um verkefni til að glæða áhuga barna og ungmenna á bóklestri. Af því tilefni fengu skólabókasöfnin og leikskólar borgarinnar 7 milljóna króna viðbótarfjárveitingu til að bæta bókakost sinn. Mikil og almenn ánægja var með Barnabókamessuna í fyrrahaust og komu fram óskir um áframhald á þessu samstarfi. Í tillögu meirihlutans sem samþykkt var á fundi skóla- og frístundaráðs 21. ágúst er kveðið á um að fjárveiting til leik- og grunnskóla vegna bókainnkaupa á Barnabókamessunni verði hækkuð um tvær milljónir króna á milli ára.