Barnabókamessa í þriðja sinn

Skóli og frístund Menning og listir

""

Efnt verður til barnabókamessu í þriðja sinn nú í haust í samstarfi Reykjavíkur Bókmenntaborgar UNESCO og Félags íslenskra bókaútgefenda. Þar verða kynntar nýjar íslenskar barna- og unglingabækur fyrir fulltrúum skólasafna og leikskóla í borginni og boðið upp á samtal við höfunda og útgefendur.

Skóla- og frístundaráðs samþykkti á fundi sínum 27. ágúst sl. að fjárveiting til grunnskóla og leikskóla vegna Barnabókamessunnar verði sú sama og á síðasta ári eða 9 milljónir króna en á messunni gefst kostur á bókakaupum á sérstöku kynningarverði. Barnabókamessan verður haldin dagana 11.-12. nóvember 2019 undir stúku Laugardalsvallar. 

Á árinu 2017 gengu skóla- og frístundasvið Reykjavíkurborgar og Félag íslenskra bókaútgefenda til samstarfs um verkefni til að glæða áhuga barna og ungmenna á bóklestri. Í kjölfarið var efnt til fyrstu Barnabókamessunnar þar sem nýjar barna- og unglingabækur voru kynntar með áherslu á nýjar bækur eftir íslenska höfunda. Barnabókamessan var haldin öðru sinni í nóvember 2018.

Starfsfólk skólasafnanna hefur lýst yfir ánægju með að geta skoðað allar nýjar útgáfur á einum stað auk þess sem tækifæri gefst til að ræða við höfunda og útgefendur. Þá skipta hagstæð kjör og sérstök fjárveiting miklu máli til að allir nemendur geti notið þess að fá nýjar og skemmtilegar bækur þegar mesta umræðan er um bækur rétt fyrir jólin.