Barka, nýtt upphaf

Velferð Mannréttindi

""

Velferðarsvið Reykjavíkur hefur gert samning við Barka, pólsk samtök sem munu aðstoða utangarðsmenn af erlendum uppruna að koma lífi sínu á réttan kjöl. Barka verkefnið miðar að því að stuðla að betri lífsgæðum þessa hóps hvort sem í því felst að snúa aftur til heimalands eða vera áfram í Reykjavík.

Barka-samtökin voru  upprunalega stofnuð í Póllandi árið 1989 til að hjálpa fólki í erfiðum félagslegum aðstæðum. Samtökin draga nafn sitt af fljótaprömmum sem eru vel þekktir í Póllandi. Nafnið er táknrænt fyrir starfsemi Barka sem veitir fólki stuðning og hvatningu til að halda áfram með líf sitt, brúa bilið milli heims utangarðsfólks til nýs lífs.

Árið 2007 leitaði Lundúnaborg til Barka til að fá aðstoð fyrir heimilislaust fólk af erlendum uppruna sem hélt til á götum borgarinnar. Verkefnið  gaf góða raun og nú starfa Barka-samtökin einnig í Dyflinni, Kaupmannahöfn, Hamborg, sex borgum í Hollandi og nú á Íslandi.

Aðstoðin er byggð á jafningjafræðslu. Þeir sem leiða starfið meðal utangarðsfólks hafa sjálfir verið í þeirra sporum og hafa búið á götum í hinum ýmsu borgum  Evrópu. Með aðstoð frá Barka tóku þeir þátt í verkefninu og náðu tökum á eigin lífi. Þeir launa svo Barka vinnuna með því að gerast sjálfir  leiðtogar. Barka leiðtogar vinna  sjálfstætt í hverju landi ásamt háskólamenntuðu aðstoðarfólki.

Velferðarsvið  hefur útvegað starfsmönnum samtakanna aðstöðu í Gistiskýlinu á Lindargötu, auk þess sem sviðið stendur straum af kostnaði við verkefnið.   m.a.  launum starfsmanna, ferðakostnaði og stuðningi á vegum Barka í Póllandi fyrir þá sem kjósa að fara til síns heimalands. Reykjavíkurborg íhlutast ekki til um ákvörðun einstaklinga þ.e. hvort þeir vilji þiggja tilboð Barka um að snúa til heim eða vera áfram í Reykjavík. Einnig er þeim sem taka þátt í verkefninu frjálst að snúa til baka þegar þeim hentar.

Reykjavíkurborg hefur ákveðið að fara þessa leið vegna þess að hún hefur skilað árangri í öðrum löndum.  Frá árinu 2012 hafa yfir 1.700 einstaklingar, í þeim borgum sem nefndar eru hér að ofan,  snúið til síns heimalands og öðlast þar betri lífsgæði með stuðningi Barka. Árið 2015 fengu 1.405 einstaklingar stuðning frá Barka í Hollandi og þar af snéru 451 einstaklingur til síns heima.

Talið er að tæplega 30 utangarðsmenn frá austur Evrópu  gætu nýtt sér aðstoð Barka í Reykjavík.

Barka auglýsir nú eftir starfsmanni í Reykjavík. Umsóknarfrestur rennur út 15. nóvember. Nánari upplýsingar um starfið fást í starfsauglýsingum á ensku og pólsku í hjálögðum viðhengjum.

Job advertisement in english.
Ogłoszenie o pracę w języku polskim 

Myndband þar sem Barka leiðtoginn Jurek segir frá starfi sínu