Á bak við linsuna í 60 ár

Mannlíf

""

Rúnar Gunnarsson ljósmyndari og fyrrum kvikmyndatökumaður hjá Sjónvarpi RUV heldur ljósmyndasýningu í samfélagshúsinu Bólstaðarhlíð 43.

Rúnar hefur tekið ljósmyndir í 60 ár og á ógrynni af efni. Hann valdi því tíu ljósmyndir sem hann hefur tekið frá því síðastliðinn nóvember eða frá því að hann flutti í Bólstaðarhlíðina, fjölbýli fyrir eldri borgara.

Rúnar sýnir ljósmyndir af húsum og húsagötum í Reykjavík og hann sagði að þó myndirnar væru nýjar væri myndefnið það ekki. Hann hefur myndað húsin í bænum frá því hann byrjaði að ljósmynda. Hann leitar ekki síst fanga á bakstígum borgarinnar og myndefnið er oft hús sem mega muna fífil sinn fegurri.

Ljósmyndun er ástríða og Rúnar hefur gefið út einar 45 bækur með eigin verkum. Á sýningunni liggja frammi 15 bækur sem sýningargestir geta gluggað í.

Öll velkomin á opnunartíma samfélagshússins Bólstaðarhlíð 43.