Bæklingur um þjónustu við eldri borgara

Velferð

""

Í næstu viku fá allir Reykvíkingar 75 ára og eldri heimsendan bækling um þjónustu við eldri borgara í Reykjavík.  Bæklinginn er einnig hægt að nálgast rafrænt á vef borgarinnar.

Það er þjónustuhópur aldraðra sem stendur að útgáfunni ásamt velferðarsviði borgarinnar.

 

Í bæklingnum má finna alla þjónustu sem borgin veitir eldri borgurum m.a. heimaþjónustu, matarþjónustu og akstursþjónustu. Þar er að finna upplýsingar um félagsstarf, söfn, hreyfingu, dvalar- og þjónusturými,  öldungaráð og annað sem gott er að vita fyrir reykvíska eldri borgara.

 

Útgáfan er einnig hluti af vinnu stýrihóps um aldursvæna borg.  Árið 2015 samþykkti Alþjóða heilbrigðisstofnunin umsókn Reykjavíkur um að vera aldursvæn borg. Í kjölfarið var boðað til fundar með fulltrúum eldri borgara frá félags- hagsmunasamtökum í öllum hverfum borgarinnar. Þar var farið vandlega yfir átta málefnasvið sem Alþjóða heilbrigðismálastofnun notar til að ákvarða hvort borg uppfylli skilyrði sem aldursvæn.

Málefnasviðin átta  eru eftirfarandi:
• Útisvæði og byggingar
• Virðing og félagsleg viðurkenning
• Samgöngur
• Virk samfélagsþátttaka og atvinnumöguleikar
• Húsnæði
• Fjarskipti og upplýsingar
• Félagsleg þátttaka
• Samfélags- og heilbrigðisþjónusta.

 

Á fundinum kölluðu hóparnir m.a. eftir betra aðgengi að upplýsingum og útgàfu bæklinga um borgina og þá þjónustu sem í boði er.  Þessi bæklingur er liður í því að koma til móts við óskir eldri borgara.

 

Í könnun um hagi og líðan eldri borgara kom fram að yfir 60% eru jákvæðir í garð tölvunotkunar og yfir helmingur fer daglega á samfélagsmiðla. Hlutfallið er enn hærra þegar litið er á yngri hluta hópsins.  Því var ákveðið að senda bæklinginn á eldri hóp ellilífeyrisþega en öllum er velkomið að nálgast hann á rafrænu formi.

 

Niðurstöður rásfundar um aldursvæna borg
Aldursvæn borg