Aukin hagkvæmni í innkaupum skóla- og frístundasviðs | Reykjavíkurborg

Aukin hagkvæmni í innkaupum skóla- og frístundasviðs

fimmtudagur, 1. nóvember 2018

Skóla- og frístundaráð hefur samþykkt að ráðast í aðgerðir til að auka hagkvæmni innkaupa á starfsstöðvum skóla- og frístundasviðs.

  • Trékubbar.
    Skóla- og frístundaráð hefur samþykkt að ráðast í aðgerðir til að auka hagkvæmni innkaupa á starfsstöðvum skóla- og frístundasvi
  • Skrifstofa skóla- og frístundasviðs er í Borgartúni 12-14, Reykjavík.
    Skrifstofa skóla- og frístundasviðs er í Borgartúni 12-14, Reykjavík.

Markmið verkefnisins er að lækka útgjöld sviðsins vegna vörukaupa um 100-150 milljónir króna á ársgrundvelli með útboðum og magninnkaupum á helstu rekstrarvörum starfsstöðvanna.

Þessi ákvörðun er tekin  í framhaldi af jákvæðum niðurstöðum útboðs á námsgögnum í grunnskólum borgarinnar. Einnig er horft til samstarfs við velferðarsvið um verkefnið til að ná fram frekara hagræði í innkaupum. Innkaupadeild Reykjavíkurborgar aðstoðar við gagnaöflun og innleiðingu. Gert er ráð fyrir að undirbúningi verkefnisins ljúki fyrir áramót og aðgerðir hefjist í ársbyrjun 2019.

Verkefnið byggir á þeirri greiningu fjármáladeildar skóla- og frístundasviðs að helstu tækifæri til hagræðingar í innkaupum á rekstrarvörum sviðsins liggi til skemmri tíma í ritföngum, ræstingavörum, innkaupum fyrir mötuneyti sviðsins og útboðum sem dregið geta úr orkukostnaði. 

Í dag er fyrst og fremst notast við rammasamninga þar sem þeim er til að dreifa en með örútboðum á rekstrarvörum er hægt að fá 10-30% lægra verð en með rammasamningi. Með hagræði er hægt að minnka vörubirgðir borgarinnar, fækka birgjum og vörunúmerum, sem einfaldar bókhald og gerir það gegnsærra. Þá er ótalinn sparnaður  í fjármagnskostnaði, umsýslukostnaði og akstri  en jafnframt má gera ráð fyrir jákvæðum unhverfisáhrifum vegna minni mengunar vegna skilvirkari dreifingar.

Með samræmdri nálgun og sameiginlegum innkaupum má því gera ráð fyrir að hægt verði að ná fram enn meiri hagræðingu fyrir borgina í heild.  Mikilvægt er að vanda til verka þannig að tryggt sé að verkefnið skili tilætluðum og viðvarandi árangri til frambúðar.