Aukið samráð í hugmyndasöfnun fyrir Hverfið mitt | Reykjavíkurborg

Aukið samráð í hugmyndasöfnun fyrir Hverfið mitt

fimmtudagur, 8. mars 2018

Hugmyndasöfnun á hverfidmitt.is stendur yfir og hafa nú þegar yfir 200 hugmyndir skilað sér á vefinn. Áhersla er í ár lögð á aukið samráð við höfunda hugmynda meðan á hugmyndasöfnuninni stendur til að útfæra þær betur í sátt við hugmyndasmiði. 

  • Hugmyndagleði í Reykjavík
    Hugmyndagleði í Reykjavík
  • Hugmyndagleði í Reykjavík
    Hugmyndagleði í Reykjavík

Einnig á að hafa meira samráð við ýmsa hópa og samtök í borginni, bæði til að hvetja þá til að senda inn hugmyndir og bjóða þeim aðstoð.  

Hugmyndavefurinn hverfidmitt.is var endurbættur í takt við óskir íbúa sem sett hafa inn hugmyndir í gegnum tíðina:

  • Meira pláss er nú gefið  til að lýsa hugmynd.
  • Hægt er að hengja ítarefni við hugmynd og geta það verið ljósmyndir, teikningar eða nánari greinargerð.
  • Bætt var við upplýsingum um tengilið fyrir innsenda hugmynd ásamt síma og netfangi svo starfsmenn borgarinnar geta nú haft samband.

Aukið frumkvæði að samvinnu við ýmsa hópa er talið geta skilað sér í enn vandaðri og áhugaverðari verkefnum en áður, auk þess sem slíkt samtal er til þess fallið að skapa betri tengsl. Breytingarnar voru samþykktar hjá stjórnkerfis- og lýðræðisráði.  „Áhersla er lögð á að ná sem fjölbreyttustum hópi inn í kosningu í verkefninu, en grundvöllur fyrir því að það takist er að í kosningunni sé verið að bjóða upp á verkefni sem höfða til þeirra. Það er því mikilvægt að vinna markvisst að því í hugmyndasöfnun að fá inn góðar og fjölbreyttar hugmyndir sem höfða til allskonar fólks þegar kemur að kosningu.“ segir í greinargerð ráðsins.

Hugmyndasöfnunin stendur til 20. mars. Í haust kjósa íbúar síðan um hvaða verkefni koma til framkvæmda.

Þeir sem vilja fá aðstoð við hugmyndavinnu eru beðnir um að hafa samband við verkefnastjórana Braga Bergsson og Unnur Margrét Arnardóttur með tölvupósti á netfangið hverfidmitt@reykjavik.is 

Tengt efni: