Aukið fjármagn til skólaþróunar - innleiðing nýrrar menntastefnu

Skóli og frístund

""

Borgarráð hefur samþykkt að auka verulega fjármagn til skólaþróunar til að styðja við innleiðingu nýrrar menntastefnu Reykjavíkurborgar. Drög að stefnunni liggja fyrir og samþykkti borgarráð að senda þau til umsagnar helstu aðila í skólasamfélaginu.

Fjármagn til þróunarverkefna verður aukið um 60 milljónir króna næsta haust og verður þá alls 100 milljónir króna á þessu ári. Jafnframt var samþykkt að verja 200 milljónum króna til þróunarsjóðs skóla- og frístundasviðs á næsta ári. Á síðastliðnu ári hafði þróunarsjóður 19 milljónir króna til ráðstöfunar og er því um verulega aukningu fjármagns til skólaþróunar að ræða sem mun nýtast leikskólum, grunnskólum, frístundaheimilum, félagsmiðstöðvum og samstarfsaðilum þeirra í borginni.

Ein af lykilaðgerðum í nýrri menntastefnu felst í því að styðja við fjölbreytt þróunarverkefni sem ýti undir samvinnu og þar sem starfsstaðir geti nýtt mannauð sinn í að útfæra og innleiða einstaka áhersluþætti menntastefnunnar. Gert verði ráð fyrir að úthlutað verði úr sjóðnum haustið 2018 í kjölfar samþykktar menntastefnunnar og verði mótaðar sérstakar reglur um úthlutunina.

Við úthlutun þróunarstyrkja á árinu 2019 verður horft til verkefna sem miða að því að efla hæfniþætti nýrrar menntastefnu auk annarra þátta, s.s. samvinnu af öllu tagi, milli kennara, milli skóla og innan hverfa. Hæfniþættir menntastefnunnar eru:

  • Félagsfærni – sýna samfélagslega ábyrgð og virkni.
  • Sjálfsefling – hafa sterka sjálfsmynd og trú á eigin getu.
  • Læsi – skilja samfélag og umhverfi.
  • Sköpun – beita skapandi hugsun.
  • Heilbrigði – tileinka sér heilbrigðan lífsstíl og líða vel. 

Mótun menntastefnu Reykjavíkurborgar hefur staðið yfir frá því í ársbyrjun 2017. Stefnumótunin hefur farið fram í víðtæku samráði allra helstu hagsmunaaðila sem koma að skólamálum í borginni: kennara, stjórnenda, foreldra, innlendra og erlendra ráðgjafa og síðast en ekki síst barna og ungmenna í leikskólum, grunnskólum og frístundastarfi í Reykjavík. Mörg þúsund manns hafa lagt verkefninu lið með hugmyndum, ábendingum og tillögum.

Sjá drög að nýrri menntastefnu

Sjá meira um menntastefnu í mótun.