Auður Lára heimsækir borgarstjóra í tilefni Fyrirmyndardagsins

Velferð Mannlíf

""

Jón Gnarr borgarstjóri tók á móti Auði Láru Sigurðardóttur í morgun, en hún er atvinnuleitandi með skerta starfsgetu og heimsótti hún borgarstjóra í tilefni af Fyrirmyndardeginum.

Fyrirmyndardagurinn verður haldinn formlega þann 4. apríl næstkomandi og stendur Vinnumálastofnun að baki átakinu.  Þann dag munu fyrirtæki bjóða atvinnuleitendum með skerta starfsgetu að fylgja starfsmanni eftir í sínu fyrirtæki eða stofnun í einn dag eða hluta úr degi og hugmyndin er að um árlegan viðburð verði að ræða.
 
Auður Lára tók forskot á sæluna og heimsótti Jón Gnarr borgarstjóra í Ráðhúsið í morgun. Jón bauð Auði Láru upp á skrifstofu til sín þar sem þau settust niður og spjölluðu. Auði Láru lék forvitni á að vita hvernig það var fyrir borgarstjóra að leika Georg Bjarnfreðarson í Vaktaþáttunum. Þá ræddu þau líka um stjórnmál og hvernig það væri að vera borgarstjóri.
 
Auður Lára fylgdi svo borgarstjóra á opnun Seturs skapandi greina þar sem borgarstjóri var með opnunarræðu og síðan á Hamingjuráðstefnu í Háskóla Íslands. 
 
Auður Lára var ánægð með daginn og sagði að það hefði verið gaman að skyggnast inn í starf borgarstjórans. 
 
Borgarstjóri sagði Fyrirmyndardaginn vera frábært framtak sem gæfi einstaklingum með skerta starfgetu tækifæri á að kynna sér hin ýmsu störf, sem þeir hefðu annars ekki átt kost á.
 
Í ár verður eingöngu horft til höfuðborgarsvæðisins og Suðurnesja eða þar sem Vinnumálastofnun er með verkefnið Atvinna með stuðningi. Stefnt  er  að því að Fyrirmyndardagurinn verði haldinn á landsvísu til þess að allir sem áhuga hafa á að taka þátt fái tækifæri til þess, bæði  atvinnuleitendur með skerta starfsgetu og atvinnurekendur.