Auðlind í aldri og reynslu

Velferð

""
Starfsmenn í félagsstarfi velferðarsviðs borgarinnar héldu málþing um virkni til æviloka 1. mars síðastliðinn.  Það er rík ástæða til að fjalla um málefni og þarfir eftirlaunaþega því í dag eru aldraðir um fjórðungur íbúa Norðurlanda en þetta hlutfall mun hækka í 40% árið 2030 og í 45% árið 2050. 
Málþingið sem bar yfirskriftina Virkni til æviloka – að bæta lífi við árin en spurt var hvort Þjónusta við eftirlaunaþega sé réttri leið?  
 
Um 90 manns sóttu þingið en  frummælendurnir, Líney Úlfarsdóttir sálfræðingur, Benedikt Jóhannesson ritstjóri, Ásdís Skúladóttir leikstjóri og félagsfræðingur,  Erna Indriðadóttir fjölmiðlakona og eigandi vefritsins Lifðu núna og Helgi Pétursson dagskrárgerðarmaður fjölluðu um öldrun frá ólíku sjónarhorni.
 
Rætt var um hvernig borgin getur stuðlað að aukinni virkni eldra fólks og hvernig best er að glæða efri árin meira lífi. Núverandi stefna er að fólk geti búið heima hjá sér sem lengst og áhersla lögð á að vinna gegn einsemd og félagslegri einangrun aldraðra.  Rætt var  um hlutverk félagsmiðstöðvanna, sem eru 17 víðsvegar um borgina, og hvort endurskoða þyrfti starfið sem þar fer fram.  Eldri borgarar er ekki einsleitur hópur og þjónustan og félagsstarfið þarf að taka mið af því.
 
Frummælendum voru sammála um að ýmsu þyrfti að breyta til að mæta eldri borgurum. Fólk lifir lengur við betri heilsu. Um helmingslíkur eru á því að sá sem er fimmtugur í dag nái því að verða 100 ára. Nýta þarf betur þá auðlind sem leynist meðal eftirlaunaþega og fólk á að geta valið um sveigjanleg starfslok  eftir vilja og getu hvers og eins.
 
Rædd voru viðhorf þess hóps sem nálgast starfslokaaldurinn og hvaða sýn sá hópur hefur    til starfsloka og þess að eldast.  Í máli Helga Péturssonar og Ernu Indriðadóttur, sem nálgast lögboðna starfslokaaldur, kom skýrt fram að þeim hugnast ekki það skipulag og framboð sem nú er í félagsstarfi á vegum borgarinnar og telja að það þurfi að endurskoða.
 
Guðrún Ágústsdóttir formaður  öldungaráðs Reykjavíkur sagði að meta þyrfti vinnuframlag eldri borgara og fólk ætti að fái laun fyrir vinnu sína og ekki  hægt að  ætlast til að þeir stundi sjálfboðastörf.  Einnig kom fram að þjónusta borgarinnar ætti fyrst og fremst að taka mið af þeim sem eru í mestri þörf fyrir þjónustuna. Líflegar umræður voru í lokin milli pallborðs og gesta.