Athugasemdir vegna tillögu um friðlýsingu á Landsímareit

Framkvæmdir Stjórnsýsla

""

Borgarlögmaður gerir fjölmargar athugasemdir vegna tillögu Minjastofnunar um friðlýsingu hluta lóðar á Landsímareit.

Borgarlögmaður hefur kynnt borgarráði athugasemdir Reykjavíkurborgar vegna tillögu Minjastofnunar Íslands til mennta-og menningarmálaráðherra um friðlýsingu hluta lóðar á svokölluðum Landsímareit, í kjölfar ákvörðunar stofnunarinnar um skyndifriðun sömu lóðar þann 8. janúar sl. Um er að ræða hluta lóðarinnar Thorvaldsensstrætis 6 sem er innan byggingarreits Lindarvatns ehf. sem er lóðarhafi Landsímareitar, en þar standa yfir byggingarframkvæmdir við hótelbyggingu.

Í október 2018 kom Reykjavíkurborg á framfæri athugasemdum við tillögu Minjastofnunar Íslands til mennta- og menningarmálaráðherra um friðlýsingu Víkurgarðs. Ráðherra staðfesti tillögu Minjastofnunar um friðlýsingu garðsins þann 8. janúar sl.  Í umsögn Reykjavíkurborgar var að finna ítarlegar röksemdir þess efnis að ekki ætti að fallast á tillögu um friðlýsingu garðsins sjálfs. Af röksemdum Minjastofnunar fyrir núverandi  friðlýsingartillögu, sem varðar hluta byggingarlóðar á Landsímareit, verður hins vegar ekki annað ráðið en að stofnunin hafi hvorki tekið efnislega afstöðu til umræddra röksemda við meðferð þessa máls, né leitast við að svara efnisatriðum málsins.

Reykjavíkurborg gerir fjölmargar athugasemdir við nýja friðlýsingartillögu sem varðar Landsímareit og eru  samanteknar niðurstöður þeirra eftirfarandi:

  • Í skilmálum fyrir friðlýsingartillögu Minjastofnunar Íslands er að mati Reykjavíkurborgar hvorki að finna röksemdir sem réttlætt geta friðlýsingu hluta lóðarinnar, né um að fyrirhuguð friðlýsing samþýðist ákvæðum V. kafla laga nr. 80/2012 um menningarminjar.
  • Reykjavíkurborg fær ekki séð að friðlýsing hluta lóðarinnar, til þess að koma í veg fyrir staðsetningu inngangs að hóteli sé í samræmi við framangreindan tilgang laganna eða eigi sér stoð í þeim þar sem ljóst er að staðsetningin muni engum minjum raska.
  • Engar minjar eru lengur til staðar á svæðinu sem friðlýsingartillaga á að ná til
  • Engin hætta er á að minjar spillist, glatist eða gildi þeirra verði rýrt
  • Víkurgarður er almenningsgarður og hefur verið lengi. Þar hefur verið skilgreindur almenningsgarður í skipulagi frá 1987 og svæðið var gert að lystigarði árið 1883 og hefur verið öllum opið frá lokum síðari heimstyrjaldar.
  • Tillaga um friðlýsingu brýtur gegn meðalhófi og við meðferð málsins var ekki gætt að rannsóknarskyldu.
  • Aðkoma neyðarbíla og slökkviliðs hefur þegar verið flutt
  • Minjastofnun hafði öll tækifæri til að koma á framfæri athugasemdum við hönnun hótelsins á reitnum í skipulagsferli málsins en gerði ekki
  • Skyndifriðun eða eftir atvikum friðlýsing getur leitt til bótaskyldu ríkisins þar sem um verðmæta byggingarlóð er að ræða á besta stað í hjarta miðborgarinnar.

Athugasemdir borgarlögmanns