Ásýnd borgar í litum, ljósum og listum | Reykjavíkurborg

Ásýnd borgar í litum, ljósum og listum

föstudagur, 9. febrúar 2018

Hvaða máli skipta lýsing, litir og list í borgum? Hafa þessir þættir áhrif á líðan borgarbúa? Hvernig má gera borg heimilislega? Velkomin á fund á Kjarvalsstöðum í fundarröðinni Borgin, heimkynni okkar sem umhverfis- og skipulagssvið stendur fyrir þriðjudaginn 13. febrúar kl. 20.

 • Vegglistaverk eftir Þórdísi Erlu Zoëga við Smiðjustíg.
  Vegglistaverk eftir Þórdísi Erlu Zoëga við Smiðjustíg.
 • Þórdís, Darío, Helena og Hjálmar.
  Þórdís, Darío, Helena og Hjálmar.
 • Ljósmynd/Sigrún Björnsdóttir.
  Ljósmynd/Sigrún Björnsdóttir.
 • Lýsingarhönnun eftir Darío Núñez (VERKÍS)
  Lýsingarhönnun eftir Darío Núñez (VERKÍS)

Umhverfis- og skipulagssvið Reykjavíkurborgar stendur ásamt Hjálmari Sveinssyni, formanni umhverfis- og skipulagsráðs fyrir fundarröð um umhverfis- og skipulagsmál . Fundirnir eru haldnir á haust- og vormisseri á Kjarvalsstöðum á Klambratúni. Á næsta fundi verður ásýnd borgarinnar skoðuð út frá nokkrum áhugaverðum sjónarhólum.

Til að ræða borgina í litum, lýsingu og listum mun Þórdís Erla Zoëga myndlistarkona, Darío Gustavo Núñez Salazar, arkitekt/lýsingarhönnuður og Helena Guttormsdóttir, lektor í Landbúnaðarháskóla Íslands, taka til máls ásamt Hjálmari Sveinssyni, formanni umhverfisog skipulagsráðs Reykjavíkurborgar og glíma við spurningar eins og: 

Hvaða máli skipta lýsing, litir og list í borgum? Hafa þessir þættir áhrif á líðan borgarbúa? Er borgin litrík eða litlaus, dimm eða björt, rík af ljósum og skuggum eða ekki? Er ef til vill best að mála allt bara allt hvítt eða drapplitað? Vantar kannski fleiri neonskilti? Mega ljósastaurar vera rauðir? Hver er ásýnd borgarinnar í dimmunni? Geta húsgaflar og port komið á óvart? Hvernig má gera borg heimilislega?

Darío Núñez er í lýsingarteymi VERKÍS sem fékk nýlega tvær viðurkenningar, „Honorable Mention“, í flokknum Exterior Architectural lighting hjá LIT Lighting Design Awards. Þórdís Erla Zoëga er myndlistarkona búsett á Íslandi. Hún hefur sýnt víða t.a.m. í Amsterdam, Stokkhólmi, Berlín, Basel og Tékklandi. Á Íslandi hefur hún gert verk fyrir Listahátíð í Reykjavík, Gerðarsafn og sýnt í D-sal Hafnarhússins. Helena Guttormsdóttir er fræðimaður og kennari í Umhverfisdeild – Umhverfisskipulagsbraut hjá Landbúnaðarháskólanum og mun tengja saman liti, efni og ljós við líðan fólks í borgum. 

Markmiðið er að færa umræðu um skipulags- og umhverfismál í vítt og breitt samhengi. Leitað er eftir gagnrýnni og hressilegri umræðu þar sem ólík sjónarmið og reynsluheimar mætast á málefnalegum grunni. Ekki er boðið upp á átök milli andstæðra sjónarmiða heldur felst aðferðin í því að greina og opna fyrir möguleika og að fólk haldi áfram að hugsa málin eftir fundina. Þótt kærkomið sé að heyra ögrandi sjónarmið. Fundirnir eru mjög vel sóttir, bæði af fagfólki og áhugafólki um skipulag og umhverfi borgarinnar og síðan eftir því hvert umræðuefnið er. Rætt er á mannamáli út frá skemmtilegum sjónarhornum um brýn efni. Þetta er annar fundurinn á vormisseri 2018 . Boðið er upp á kökur og kaffi og reynt að skapa kaffihúsastemningu. 

Tengill

Upptökur af Kjarvalsstaðafundum

Viðburður á Facebook 

Darío: Lýsing á Stjórnarráðinu

Heimasíða Þórdísar Erlu

Helena Guttormsdóttir

Auglýsing um fundinn

Ljósmynd/Sigrún Björnsdóttir