Aspir fjarlægðar við Orminn langa

Umhverfi

""

Allt að 21 ösp verður fjarlægð í sumar við göngustíginn sem liggur samhliða Langarima í Rimahverfi í Grafarvogi. Göngustígurinn hefur verið kallaður Ormurinn langi.

Undanfarin ár hafa aspir verið fjarlægðar við göngustíginn og er þetta lokaáfangi verksins. Í stað aspanna koma tré af lágvaxnari tegundum sem ekki eru jafn rótarfrek og aspirnar en þær hafa víða skemmt út frá sér með miklu rótarkerfi sínu. Þá verður einnig komið fyrir runnagróðri og fjölærum plöntum til að auka líffræðilega fjölbreytni. Einnig verða gerðar lagfæringar á gönguleiðinni.

Aspir hafa víða verið fjarlægðar í borginni undanfarin ár en þær þykja henta illa sem borgartré vegna þessa að rætur þeirra eru mjög kraftmiklar og skemma bæði hellulagnir, malbik og grasflatir. Kostnaðaráætlun vegna þessara framkvæmda er 20 milljónir króna.