Áskoranir í innleiðingu blágrænna ofanvatnslausna

Umhverfi Skipulagsmál

""

Tveggja daga framhaldsnámskeið um blágrænar ofanvatnslausnir var haldið var fyrir starfsfólk Reykjavíkurborgar og Veitna. Um er að ræða þverfaglegt samstarf í skipulags-, fráveitu- og umhverfismálum. Helstu kostir eru minna álag á fráveitukerfið og lægri stofn- og rekstrarkostnaður. 

Reykjavíkurborg og Veitur hafa tekið höndum saman um innleiðingu blágrænna ofanvatnslausna í Reykjavík en það felst í því að veita regnvatni á náttúrulegan hátt niður í jarðveginn í stað þess að veita því í hefðbundin fráveitukerfi. Ávinningur þess að virkja blágrænnar ofanvatnslausnir er margþættur. Helstu kostir eru minna álag á fráveitukerfið og því lægri stofn- og rekstrarkostnaður. Vötn, ár og lækir verða hreinni, umhverfið gróðurríkara og heilsusamlegra og líffræðilegur fjölbreytileiki eykst. Allt dregur þetta úr og eru mótvægisaðgerðir gagnvart neikvæðum loftslagsbreytingum. Reykjavíkurborg og Veitur feta nú í fótspor fjölda annarra borga sem vilja takast á við loftslagsbreytingar á þennan hátt og bæta um leið heilsu og lífgæði íbúa. Þetta má gera með ýmsum útfærslum.

Dagana 16. - 17. apríl s.l. stóðu Reykjavíkurborg og Veitur fyrir námskeiði um blágrænar ofanvatnslausnir. Um var að ræða tveggja daga framhaldsnámskeið sem haldið var fyrir starfsfólk og er liður í að byggja upp þekkingu á viðfangsefninu. Námskeiðið og lausnirnar sem kynntar voru eru sérstaklega aðlagaðar íslenskum aðstæðum. Það var haldið af CIRIA, samtökunum sem hafa gefið út ítarlegt leiðbeiningar- og hönnunarefni um innleiðingu blágrænna ofanvatnslausna í Bretlandi. Á námskeiðinu var m.a. farið í hönnun mismunandi lausna, grunnforsendur, útreikninga, mengun og öryggismál. Á grunnnámskeiði sem haldið var fyrir starfsfólk í lok febrúar var m.a. rætt um áskoranir og tækifæri í innleiðingu blágrænna ofanvatnslausna.

Fyrirlesarar á námskeiðinu voru Anthony McCloy verkfræðingur og Robert Bray landslagsarkitekt, en þeir hafa mikla reynslu af innleiðingu blágrænna ofanvatnslausna í Bretlandi. Þátttaka á námskeiðinu var góð og sátu um 35 þátttakendur námskeiðið, fjölbreyttur hópur starfsfólks frá Reykjavíkurborg og Veitum.  

Lykillinn að því að taka upp blágrænar ofanvatnslausnir er þverfaglegt samstarf í skipulags-, fráveitu- og umhverfismálum með aðkomu þeirra sem sjá um græn svæði og með góðri samvinnu við íbúa. Þátttaka annarra stofnana, rannsóknarsamfélagsins og sérfræðinga er sömuleiðis afar mikilvæg í þessu metnaðarfulla verkefni.

Tengill

Blágrænar ofanvatnslausnir - frétt

CIRIA