Ársreikningur samþykktur í borgarstjórn

Stjórnsýsla Fjármál

""

Rekstrarniðurstaða samstæðu Reykjavíkurborgar var jákvæð um rúma 11 milljarða króna árið 2019 samkvæmt endurskoðuðum ársreikningi sem var samþykktur í borgarstjórn í gær. 

Ársreikningur Reykjavíkurborgar fyrir árið 2019 var samþykktur á fundi borgarstjórnar í gær. Samkvæmt honum er rekstrarniðurstaða A- og B-hluta jákvæð um 11.199 m.kr.  Þá var rekstrarniðurstaða A-hluta jákvæð um 1.358 m.kr.  

Rekstrarniðurstaða fyrir fjármagnsliði var jákvæð um 930 m.kr. en áætlun gerði ráð fyrir jákvæðri niðurstöðu um 4.047 m.kr. 

Heildareignir samkvæmt samanteknum efnahagsreikningi námu í árslok 688.915 m.kr., heildarskuldir ásamt skuldbindingum voru 345.022 m.kr. og eigið fé var 343.893 m.kr. en þar af var hlutdeild meðeigenda 18.884 m.kr.  Eiginfjárhlutfall er nú 49,9% en var 49,4% um síðustu áramót.

Rekstur Reykjavíkurborgar skiptist í A-hluta og B-hluta. Til A-hluta telst starfsemi sem að hluta eða öllu leyti er fjármögnuð með skatttekjum. Um er að ræða Aðalsjóð, sem heldur utan um rekstur fagsviða og Eignasjóð.

Til B-hluta teljast fjárhagslega sjálfstæð fyrirtæki sem að hálfu eða meirihluta eru í eigu borgarinnar, en rekstur þeirra er að stofni til fjármagnaður með þjónustutekjum. Fyrirtækin eru:  Orkuveita Reykjavíkur, Faxaflóahafnir sf., Félagsbústaðir hf., Íþrótta- og sýningahöllin hf., Malbikunarstöðin Höfði hf., Slökkvilið höfuðborgar­svæðisins bs., Sorpa bs. og Strætó bs, auk Aflvaka hf og Þjóðarleikvangs ehf.

Ársreikningur Reykjavíkurborgar 2019