Árið 2015 metár í íbúðarbyggingum

fimmtudagur, 31. mars 2016
Tífalt meira byggt af íbúðafermetrum en hótelfermetrum. Samþykkt byggingarmagn í Reykjavík hefur nær tvöfaldast frá fyrra ári og er íbúðarhúsnæði þar í miklum meirihluta eða 64%
  • Við Grandaveg eða svokölluðum Lýsisreit rísa nú yfir 140 íbúðir.
    Við Grandaveg eða svokölluðum Lýsisreit rísa nú yfir 140 íbúðir.
  • Við Einholt - Þverholt byggir Búseti um 240 íbúðir.
    Við Einholt - Þverholt byggir Búseti um 240 íbúðir.
Ársskýrsla byggingarfulltrúans í Reykjavík var kynnt í borgarráði í morgun. Í henni er að finna athyglisverða tölfræði yfir byggingarframkvæmdir í borginni.
 
Fjöldi nýrra íbúða í samþykktum byggingaráformum í Reykjavík árið 2015 var 969. Flestar íbúðirnar eru í fjölbýlishúsum eða 926, í raðhúsum 30, í tvíbýlishúsum sex og sjö í einbýlishúsum. Þar af eru 102 stúdentaíbúðir.
 
Í ársskýrslunni kemur einnig fram að á árinu 2015 hafi smíði 926 íbúða hafist. Þetta er mikil aukning frá meðaltali því að frá árinu 1972 hefur að jafnaði verið hafin smíði á 609 íbúðum á ári. Flestar voru þær í byggingu árið 1973 eða 1.133, 992 árið 1986 og 983 árið 2005.  Til samanburðar voru aðeins tíu íbúðir byggðar árið 2010. Því er ljóst að árið 2015 er með allra bestu árum í byggingarsögu Reykjavíkur enda rís íbúðarhúsnæði hratt víða um borgina þessa mánuðina.
 
Samþykkt heildarbyggingarmagn í Reykjavík á árinu 2015 var fyrir um 235 þúsund fermetra og 912 þúsund rúmmetra fyrir allt húsnæði. Byggingaráform fyrir íbúðir voru um 64% alls byggingarmagns eða fyrir um 151 þúsund fermetra og 487 þúsund rúmmetra. Árið 2014 var samþykkt byggingarmagn fyrir allt húsnæði um 136 þúsund fermetrar og 531 þúsund rúmmetrar.  Aukning á samþykktu byggingarmagni á milli ára er því um 73% eða nærri tvöföld aukning og margföld ef miðað er við árið 2010 þegar einungis um 18 þúsund fermetrar og 68 þúsund rúmmetrar voru samþykktir.
 
Hótel og veitingahús eru einnig í byggingu víða um borgina en í litlu mæli samanborið við byggingu íbúðarhúsnæðis. Tæpir fjórtán þúsund fermetrar og 44,5 rúmmetrar af hótel og veitingahúsnæði voru samþykktir af byggingarfulltrúa í fyrra en því hefur verið haldið fram að fjárfesting í hótelbyggingum tefji uppbyggingu íbúðarhúsnæðis. Tölurnar sýna svart á hvítu að svo er ekki en magn fermetra í íbúðarhúsnæði er tífalt meira.