Árbæjarskóli og Kampur fá Menningarfánann

Skóli og frístund Mannlíf

""

Dagur B. Eggertsson borgarstjóri afhenti í dag Árbæjarskóla og frístundamiðstöðinni Kampi Menningarfána Reykjavíkurborgar fyrir framúrskarandi menningarstarf með börnum og ungmennum.

Menningarfáninn var afhentur í þriðja sinn við hátíðlega athöfn í Höfða þar sem börn og ungmenni skemmtu gestum með upplestri og söng. 

Markvisst menningaruppeldi í skólastarfi í Árbæ
Árbæjarskóli fékk Menningarfána fyrir ríka áherslu á list- og menningarfræðslu í öllu skólastarfi og markvisst menningaruppeldi. Í skólanum fá nemendur að kynnast flestum listgreinum í fjölbreyttri vinnu og sköpun. Nemendur hafa m.a. tekið þátt í myndlistarsýningum í hverfinu, í skólanum starfa tveir kórar og á unglingastigi er boðið upp á söng- og tónlistarval með ýmsum uppákomum. Þá er árlega efnt til stuttmyndasamkeppni í samvinnu við félagsmiðstöðina Tíuna og boðið er upp á fjölbreytta myndlistarkennslu.
Í Árbæjarskóla koma listamenn reglulega í heimsókn og listhópar á vegum skólans eru virkir í nærsamfélaginu.
Sá fjárstyrkur sem Árbæjarskóli hlýtur sem viðurkenningu verður m.a. nýttur til að efla enn frekar Menningarhátíð skólans sem haldin er í tengslum við Barnamenningarhátíð Reykjavíkur. 

Ritlist og listasmiðjur í Kampi
Í frístundamiðstöðinni Kampi hefur tekist að skapa hvetjandi umhverfi til margvíslegrar sköpunar. Rík áhersla er á listuppeldi sem kemur m.a. fram í markvissum ráðningum listhneigðs starfsfólks, en markmið er að þriðjungur starfsmanna hafi listmenntun og þekkingu sem nýtist í frístundastarfinu. 
Á ári hverju ári vinna frístundaheimilin í Kampi skapandi verkefni í tengslum við Barnasáttmála Sameinuðu Þjóðanna og fara í réttindagöngu í Ráðhúsið. Kampur er einnig í virku samstarfi við Listasafn Reykjavíkur og Bíó Paradís og rithöfundar og aðrir listamenn eru reglulega fengnir til samstarfs.  Í vetur voru haldnar ritlistarsmiðjur um hryllingssögur fyrir nemendur í 3.-4. bekk sem lauk með útgáfu bókarinnar Eitthvað illt á leiðinni er, smásagnasafni 19 barna.
Kampur hyggst nýta fjárstyrkinn sem fylgir Menningarfánanum til að kaupa listasmiðju á hjólum sem ferðast má með á milli staða.

Menningarfáni Reykjavíkur miðar að því að hlúa að listkennslu og skapandi starfi með börnum og ungmennum í leikskólum, grunnskólum, frístundamiðstöðvum og skólahljómsveitum. Hann byggir á menningarstefnu Reykjavíkurborgar þar sem áhersla er lögð á að menning og listir séu snar þáttur í uppeldi og kennslu barna og ungmenna. Markmiðið  með viðurkenningunni er að framlag barna til menningar og lista verði metið að verðleikum og gert sýnilegt, svo og að rækta menningarlega sjálfsmynd barna.