Andi aðventunnar svífur yfir Hverfisgötunni

Umhverfi Skipulagsmál

""

Hverfisgatan hefur gengið í endurnýjun lífdaga undanfarin ár og er orðin verulega aðlaðandi fyrir vegfarendur. Rekstaraðilar eru bjartsýnir á aðventunni og sammála um sérstöðu götunar en þar ríkir nokkur fjölbreytni í söfnum, verslunum og mannlífi.

Endurgerð Hverfisgötu milli Ingólfsstrætis og Smiðjustígs lauk nú í nóvember en framkvæmdir voru á vegum umhverfis- og skipulagssviðs Reykjavíkurborgar, Veitna og Mílu ehf. Útlit götunnar er nú með svipuðu sniði og sá kafli götunnar sem búið er að endurgera milli Smiðjustígs og Snorrabrautar.

Allt yfirborð götu og gangstétta hefur verið endurnýjað, lagnir endurnýjaðar eftir þörfum og snjóbræðsla var sett í upphækkuð gatnamót og göngu- og hjólaleiðir. Markmið framkvæmdanna var m.a. að fegra götumyndina, bæta göngu- og hjólaleiðir og gera götuna aðlaðandi. Strætó mun á nýjan leik fara um Hverfisgötuna frá og með sunnudeginum 8. desember eftir að búið verður að laga steinlögn ofar í götunni eða á gatnamótum við Vatnsstíg.

Jólastemning á Hverfisgötunni

Nú er búið að skreyta götuna með margskonar jólaljósum og bjöllum. Við tókum stöðuna á Hverfisgötunni, litum inn í tvær búðir, á veitingastað og í Safnahúsið til að heyra hljóðið í þeim sem standa þar vaktina og gerðum stutt myndband.

Hverfisgatan hefur upp á margt að bjóða

„Við í Safnahúsinu erum mjög ánægð með greiðfæra Hverfisgötu. Hjá okkur er verið að setja upp sýningu á jólatrjám úr safneign Þjóðminjasafns Íslands, þau eru frá fyrrihluta síðustu aldar áður en lifandi jólatré urðu vinsæl,“ segir Sigurlaug Jóna Hannesdóttir verkefnisstjóri í Safnahúsinu.  Sýningin opnar formlega sunnudaginn 1. desember og er opin til 5. janúar. Þar verður m.a. að finna jólatré frá árinu 1927 sem er ríkulega skreytt fjölbreyttu skrauti frá ýmsum tímum. 

Grunnsýningin í húsinu heitir Sjónarhorn en þar gefa þjóðargersamar hvers konar, forngripir, náttúrugripir, listaverk, skjöl og handrit innsýn í sjónrænan menningararf þjóðarinnar. „Við erum mjög glöð að búið sé að opna Hverfisgötuna, hún hefur upp á margt skemmtilegt að bjóða, safn, bíó, leikhús, verslanir og veitingastaði,“ segir Sigurlaug. 

„Núna kemst fólk á Gráa köttinn óhindrað, þannig að ég er ánægður með það,“ segir Ásmundur Helgason í Gráa Kettinum Hverfisgötu 16a sem er morgun- og hádegisveitingastaður. „Gatan lítur vel út og það ætti að vera gott að komast inn úr kuldanum og fá sér kaffi eða skella sér í bröns.“ Kaffihúsið opnar 7.30 á virkum dögum, átta um helgar og er eldhúsið opið til 14. „Það er sérstakur jólakaffidrykkur á aðventunni sem óhætt er að mæla með,“ segir hann.  

Arnaud-Pierre Fourtane í Hyalin á Hverfisgötu 35, sem er frönsk sælkeraverslun er ánægður með Hverfisgötuna á aðventuna en samkvæmt hans smekk mætti skreyta meira til að hún yrði enn fallegri. „En við erum reiðubúin með hvers konar góðgæti fyrir jólin,“ segir hann.

„Við erum ánægð með hvernig Hverfisgatan lítur út núna og spennt fyrir framhaldinu,“ segir Rannveig Kristjánsdóttir í NORR11 á Hverfisgötu 8, sem selur norræn hönnuð húsgögn. „Það er margt að gerast á Hverfisgötunni, margar spennandi verslanir og veitingastaðir eru komin í götuna og hún býr yfir fjölbreyttu landslagi sem slík. Hverfisgata er orðinn spennandi áfangastað fyrir Íslendinga hvað varðar verslun og mannlíf, þannig að ég er bjartsýn.“

Tengill

Stutt myndband með viðmælendum á Hverfisgötunni - Reykjavíkurborg facebook