Ánægja með endurbætta Nóaborg

Skóli og frístund

Nóaborg komin heim eftir gagngerar endurbætur.

„Þetta er rosalega flott. Allar innréttingar eru á hjólum sem gerir auðvelt að breyta skipulagi, hér eru flottustu fatahólf sem ég hef séð, hljóðvistin er miklu betri og klósettseturnar eru æði,“ segir Anna Margrét Ólafsdóttir leikskólastjóri í Nóaborg sem er aftur komin heim eftir gagngerar endurbætur á húsnæðinu.

Starfsemin var á þremur stöðum á meðan á framkvæmdum stóð

Framkvæmdirnar tóku sjö mánuði og þurfti að rýma leikskólann og flytja starfsemina á þrjá staði á því tímabili sem hefur verið áskorun fyrir starfsfólkið. „Einn deildarstjórinn sagði að hún hefði ekki ætlað að geta sofnað í gærkvöldi því hún var svo spennt að mæta í vinnuna í dag. Við unnum að því í síðustu viku að koma okkur fyrir og ég hélt á fimmtudaginn að við myndum ekki ná þessu fyrir daginn í dag en ég er með ofurhetjur hér í vinnu og við náðum að klára. Nú er þetta er búið og við erum komin heim,“ sagði Anna Margrét í gær þegar hún bauð til opnunar. Aðspurð sagði hún hafa verið afar mikilvægt að hafa Pollýönnu með í farteskinu þegar á móti blés. „Það er búið að ganga á ýmsu en á föstudaginn fékk ég svo þá tilfinningu yfir mig að þetta hafi allt verið þess virði.“

Starfsfólkið á hrós skilið fyrir seiglu í krefjandi aðtæðum

Helgi Grímsson, sviðsstjóri skóla- og frístundasviðs, segir ánægjulegt að sjá hvað er búið að bæta starfsumhverfið í leikskólanum. Greinilegt sé á starfsfólkinu að það er ánægt með að vera komið heim  í mun betri starfsaðstæður og eigi hrós skilið fyrir seigluna í þessum aðstæðum. Dagur B. Eggertsson borgarstjóri mætti einnig til að sjá afraksturinn. „Það ýtir undir bjartsýni að koma hingað því við erum í þessum verkefnum út um alla borg eftir að við réðumst í þetta viðhaldsátak. Það sem hefur staðið upp úr hér og víða annarsstaðar er frammistaða stjórnenda. Anna Margrét og starfsfólkið hefur þurft að flytja á þrjá staði og hefur sýnt alveg ótrúlega útsjónasemi, kannski í þeirri vissu að þetta yrði miklu betri aðstaða en áður. Það er auðvitað gaman að sjá þetta verða að veruleika þó hér sé ýmislegt sem ekki er endanlega tilbúið eins og nýjar hurðar, en þetta lítur rosalega vel út."