Alþjóðlega bókmenntahátíðin í Reykjavík

Menning og listir Mannlíf

""

Alþjóðlega bókmenntahátíðin í Reykjavík verður haldin í fjórtánda sinn dagana 24 - 27. apríl. Þessi huggulega hátíð er fundarstaður lesenda og höfunda og lifandi vettvangur umræðna um bókmenntir og skáldskap. Ókeypis er inn á viðburði og þeir eru öllum opnir. 

Hátíðin er sannkölluð hátíð lesenda og höfunda og fer fram í Iðnó, Norræna húsinu og Veröld - húsi Vigdísar. Fjöldi íslenskra og erlendra rithöfunda hefur boðað komu sína á Bókmenntahátíð í Reykjavík, og verða margar nýjar þýðinga á erlendum bókum gefnar út af íslenskum forlögum í kringum hátíðina.  

Höfundahópurinn er afar fjölbreyttur; lesið verður upp úr nýjum bókum af ýmsu tagi og höfundaviðtöl verða á sviði. Þá verða höfundasamtöl um glæpasögur, kvikmyndaaðlögun, fjölskyldusögur og fleira. Sem fyrr er hátíðin öllum opin, aðgangur er ókeypis og auk þess verður hægt að fylgjast með dagskránni í streymi í gegnum vefsíðu. 

Dagskrá við allra hæfi

Auk höfundasamtala og upplestra verður á hátíðinni sérstök barnadagskrá. Fimmtudaginn 25. apríl, á sumardaginn fyrsta, verður börnum flóttamanna og hælisleitenda boðið að fagna sumri með bóklestri og smiðjum í barnabókasafni Norræna hússins í samstarfi við Rauða krossinn, IBBY á Íslandi og Norræna húsið. Leiðsögn verður um sýninguna Barnabókaflóðið á arabísku og lesið verður úr bókum Áslaugar Jónsdóttur á arabísku en Barnabókaflóðið verður öllum opið í barnabókasafninu þann dag og eins og aðra daga hátíðarinnar.

Ný alþjóðleg bókmenntaverðlaun kennd við Laxness

Á sumardaginn fyrsta verður haldið alþjóðlegt þing um Halldór Laxness í Veröld - húsi Vigdísar. Í vetur sem leið var þing helgað Halldóri Laxness haldið í Osló og var þá þegar ákveðið að þingið færi fram bæði í Osló og Reykjavík. Þingið er haldið í samvinnu við Gljúfrastein, sendiráð Noregs á Ísland, Stofnun Vigdísar, Fritt ord og Kulturrådet í Noregi. Fram koma íslenskir og erlendir fyrirlesarar sem fjalla um Laxness í fjölbreyttu samhengi. Fyrirlesararnir eru Gerður Kristný, John Freemen, Mímir Kristjánsson, Auður Jónsdóttir, Halldór Guðmundsson, Karin Haugen og Tore Renberg. Þingið fer fram á ensku.

Á þinginu verður tilkynnt hver hlýtur Alþjóðleg bókmenntaverðlaun Halldórs Laxness í fyrsta sinn en til verðlaunanna var stofnað nú í vetur. Verðlaunin eru veitt alþjóðlega þekktum rithöfundi fyrir að stuðla að endurnýjun sagnalistar með verkum sínum, en fyrir það hlaut Halldór sjálfur Nóbelsverðlaunin á sínum tíma. nánar hér

Kvikmyndasýning í Norræna húsinu

Sunnudagskvöldið 28. apríl verður sýnd í sal Norræna hússins bíómyndin Jalouse eftir þá David og Stéphane Foenkinos, en myndin byggir á skáldsögu eftir David. David mun kynna myndina og svara spurningum áhorfenda. Hér er um að ræða gamanmynd um ástríka móður sem finnur skyndilega til mikillar afbrýðissemi gagnvart dóttur sinni.