Alþjóðleg ráðstefna um skammtímaþjónustu | Reykjavíkurborg

Alþjóðleg ráðstefna um skammtímaþjónustu

mánudagur, 12. mars 2018

Stjórn samtaka ISBA, alþjóðleg grasrótarsamtök um skammtímaþjónustu og afþreyingu fyrir fatlað fólk og fjölskyldur þess. Stjórn samtakanna fundaði hér í síðustu viku í tengslum við alþjóðlega ráðstefnu sem velferðarsvið mun halda utan um fyrir hönd ISBA á Hilton hóteli næsta haust eða dagana níunda til ellefta október. 

  • Colette Daly, Sigurbjörg Fjölnisdóttir, Katrín Þórdís Jacobsen, Sheelagh Mcinerney, Margrét Lísa Steingrímsdóttir, Leslie Atkins
    Stjórnin sem undirbjó spennandi haustráðstefnu ISBA, frá vinstri; Colette Daly, Sigurbjörg Fjölnisdóttir, Katrín Þórdís Jacobsen, Sheelagh Mcinerney, Margrét Lísa Steingrímsdóttir, Leslie Atkinson, Casandra Firman, Kim Whitmore, Kristjana Gunnarsdóttir og Janet Leach

Ráðstefnan er vettvangur fyrir fagfólk og leikmenn að hittast og skiptast á reynslu og þekkingu í skammtímaþjónustu sér í lagi hvað varðar stuðning við ættingja og vini.

Það er við hæfi að halda ráðstefnuna hér í ár því formennska samtakanna er nú í hendi Margrétar Lísu Steingrímsdóttur, forstöðumanns  Álfalands, skammtímavistunar fyrir fötluð börn. Margrét Lísa var sæmd riddarakrossi af forseta Íslands árið 2015 en hana fékk hún fyrir störf í þágu fatlaðra barna og velferðar.  

Allir aðalfyrirlesarar hafa staðfest komu sína og þar verða frá Íslandi sr. Bjarni Karlsson, Dagur Steinn Elfu Ómarsson og Regína Ásvaldsdóttir. Að auki koma þrír aðalfyrirlesarar erlendis frá. Birgitte Bonnerup sálfræðingur kemur frá Roskilde háskóla í Danmörku en hún hefur gefið út bækur um atvinnu og líðan, en þekktust þeirra er Ást og einmanaleiki  í atvinnulífi. Prófessor Roy McConkey kemur frá Ulster háskóla í Bretlandi. Síðast en ekki síst ber að nefna hina skosku Sally Magnusson en hún var valin kona ársins í Skotlandi en ákvörðunin á bak við valið var vinna með alzheimer sjúklingum með því að treysta bönd í fjölskyldum í gegnum tónlist.

Það er skemmst frá því að segja að stjórn ISBA leist mjög vel á aðstæður hér og óhætt að fullyrða að stjórnin horfir bjartsýn til haustráðstefnu samtakanna hér á landi. Þeir sem hafa áhuga geta kynnt sér samtökin og ráðstefnuna nánar á www.isba.me