Almenn ánægja með heimsendan mat

Velferð

""

Þjónustukönnun leiðir í ljós almenna ánægju með heimsendan mat frá eldhúsinu að Vitatorgi en tæplega 90% viðskiptavina sögðust geta mælt með matnum.

Í eldhúsinu á Vitatorgi er máltíðin hraðkæld að lokinni matreiðslu. Þannig helst ferskleiki og gæði og viðskiptavinurinn getur þá valið hvort hann borðar máltíðina strax eða geymir hluta af henni. Misjafnt er hvort fólk kaupir máltíð daglega eða velur sér daga.

Meira en helmingur þeirra sem svöruðu fannst maturinn bragðast vel eða mjög vel og þótti hann fjölbreyttur. Yfir 70%  svarenda telja að maturinn sé oftast hollur en flestir eru þó sammála um að ef einhverju eigi að bæta við máltíðir sé það meira af ávöxtum. Ánægjan mælist mest með helgarmáltíðir.

Við undirbúning viðhorfskönnunarinnar  var haft samráð við landssamband aldraðra og félag eldri borgara og í samvinnu við velferðarsvið. Öll úrvinnsla og samantekt var í höndum deildar gæða og rannsókna hjá sviðinu og lauk henni núna í desember.

Spurningalisti var sendur til allra skráðra notenda sem fengu heimsendan mat í september. Samtals voru það 494 viðskiptavinir, eða 210 karlar (43%) og 284  (57%) konur. Svarhlutfall var 42,5% en 208 svör bárust við spurningunum, öllum eða að hluta.

Niðurstöður viðhorfskönnunar um heimsendan mat.