Allir íbúar flokka úrgang en velja þjónustuna sjálfir | Reykjavíkurborg

Allir íbúar flokka úrgang en velja þjónustuna sjálfir

fimmtudagur, 9. ágúst 2018

Sökum rangfærsla í fréttinni „Íbúar stýri því hvort þeir flokki eigið sorp“ í Morgunblaðinu 8. ágúst 2018 er nauðsynlegt að veita innsýn í nokkrar staðreyndir um sorphirðu við heimili í Reykjavík.

  • Borgarbúar velja þjónustuna
    Borgarbúar velja þjónustuna

Blaðamaður hefur ranglega eftir Eygerði Margrétardóttur deildarstjóra umhverfis- og úrgangsstjórnunar hjá Reykjavíkurborg, jafnvel þótt hún hafi leiðrétt hann áður en fréttin birtist. Þar stendur til dæmis í fyrirsögn að íbúar stýri því hvort þeir flokki, en hið rétta er að þeir geta valið þá þjónustu sem þeir vilja til að flokka. Íbúar í Reykjavík velja hvort þeir hafa tunnur undir endurvinnsluefni við heimili sitt eða skila endurvinnsluefnum sjálfir á grenndar- og endurvinnslustöðvar og greiði minna.Það er því ljóst að allir eiga að flokka.

Íbúar þurfa að óska eftir grænni tunnu undir plast og blárri tunnu undir pappír og pappa við heimili sitt. Tunnurnar eru keyrðar út endurgjaldslaust. Einnig bjóða fyrirtæki á markaði upp á endurvinnslutunnur sem allir geta nýtt sér.

Ný gas- og jarðgerðarstöð

Einnig stendur í fréttinni að engar frekari breytingar hafi verið kynntar í Reykjavík en hið rétta er og það sem blaðamanni var sagt, er að 18. ágúst nk. verður fyrsta skóflustungan að nýrri gas- og jarðgerðarstöð í Álfsnesi tekin.

Samhliða opnun stöðvarinnar verður íbúum Reykjavíkur boðið upp á ílát undir sérsafnaðan lífrænan úrgang við heimili sín. 

Fullyrt er í fréttinni að borgarbúar greiði talsvert meira fyrir sorphirðu en íbúar í öðrum sveitarfélögum en það er ekki rétt, heldur er rangt reiknað. Það er staðfest í minnisblaði Environice varðandi innheimtu kostnaðar vegna úrgangsmála.

Vísbendingar um niðurgreiðslu vegna sorphirðu

Samkvæmt 23. gr. laga nr. 55/2003 skulu sveitarfélög „innheimta gjald fyrir alla meðhöndlun úrgangs. Jafnframt er sveitarfélögum heimilt að innheimta gjald fyrir tengda starfsemi sem samræmist markmiðum laganna, svo sem þróun nýrrar tækni við meðhöndlun úrgangs, rannsóknir, fræðslu og kynningarmál“. Í 23. gr. laganna segir einnig: „Gjald sem sveitarfélag eða byggðasamlag innheimtir skal þó aldrei vera hærra en nemur þeim kostnaði sem fellur til í sveitarfélaginu við meðhöndlun úrgangs og tengda starfsemi“.

Í minnisblað Environice varðandi innheimtu kostnaðar vegna úrgangsmála stendur: „Svo virðist sem langflestar sveitarstjórnir á Íslandi brjóti gegn því ákvæði laganna að gjald skuli innheimt fyrir alla meðhöndlun úrgangs. Það er því sérkennilegt að bera saman sorphirðugjöld sveitarfélagana ef slíkt er stundað."

Reykjavíkurborg hefur lagt áherslu á að fara að lögum og innheimta gjöld í takt við kostnað en greiða ekki niður málaflokk úrgangsmála með öðrum tekjustofnum, s.s. fasteignargjöldum eða útsvari.

Mismunandi þjónusta sveitarfélagana

Mikilvægt er að þjónustan sem í boði sé höfð til hliðsjónar þegar sorphirðugjöld sveitarfélaga eru borin saman, svo sem fjöldi íláta og losunartíðni. Nefna má sem dæmi að rýmd íláta sem íbúar sveitarfélagana hafa úr að spila til að losa sig við úrgang er mest í Reykjavík. Borgarbúar hafa sem nemur 281 lítra á hverri viku til að losa sig við úrgang, ef þeir nýta sér þá þjónustu, sem fjallað er um í Morgunblaðsins 8. ágst, á meðan íbúar Garðabæjar hafa 253 lítra á viku. Mestur er munurinn í Hafnarfirði og Seltjarnarnesi þar sem íbúar geta sett frá sér sem nemur 180 lítrum af úrgangi á viku eða 36% minna en í Reykjavík.

Horft er til mengunarbótareglunnar og þjónustustigs við ákvörðun gjalds fyrir meðhöndlun úrgangs í Reykjavík. Mengunarbótareglan, um að sá geldur sem veldur, er höfð að leiðarljósi. Íbúar sem kjósa að flokka úrgang til endurvinnslu og draga þannig úr fjárhagslegum og umhverfislegum kostnaði við meðhöndlun úrgangs greiða þannig minna. Gjaldið í Reykjavík miðast við úrgangsflokk og fjölda, stærð og hirðutíðni íláta við íbúðarhús auk fjarlægðar íláta frá hirðubíl. 

Þeir sem kjósa að flokka til endurvinnslu geta minnkað eða fækkað ílátum undir blandaðan úrgang og þannig lækkað gjöld sín.

Heildartekjur af hverri íbúð hærri hjá öðrum sveitarfélögum

Heildartekjur vegna sorphirðu er ekki hæstur í Reykjavík á höfuðborgarsvæðinu þrátt fyrir að borgin innheimti gjöld í takt við kostnað vegna sorphirðu eins og henni er gert að gera samkvæmt lögum. Ef skoðaður er meðalkostnaður hverrar íbúðar í Reykjavík þá er áætlað að árið 2018 greiði hver íbúð 32.559 kr. fyrir sorphirðu eða 626 kr. á viku. Í öðrum sveitarfélögum á höfuðborgarsvæðinu er innheimt eitt gjald á íbúð. Gjaldið er það sama óháð úrgangsmagni og þjónustu. Ef miðað er við þetta þá greiða íbúar bæði Kópavogs og Hafnarfjarðar meira en íbúar Reykjavíkur fyrir sorphirðu. 

Á heimilum þar sem lítið fellur til af blönduðum úrgangi geta íbúar í sérbýli óskað eftir spartunnu sem er ódýrari og helmingi minni en gráa tunnan eða 120 lítrar. Spartunnan er hirt á 14 daga fresti eins og gráar tunnur undir blandaðan heimilisúrgang. Þetta er sama hirðutíðni og tíðkast í flestum öðrum sveitarfélögum á höfuðborgarsvæðinu. 

Íbúar í fjölbýlum geta endurskoðað fjölda grárra tunna og fækkað þeim ef tilefni er til og greitt þannig lægri gjöld. Oft má fækka gráum tunnum í fjölbýlishúsum þar sem tunnur eru samnýttar og getur þá skapast svigrúm til að fá grænar og bláar tunnur undir endurvinnsluefni.

Um söfnun á plasti í Reykjavík

Tvö ár eru síðan Reykjavíkurborg innleiddi sérstaka græna tunnu undir plast. Tunnan hefur mælst mjög vel fyrir hjá íbúum auk þess sem flokkun plasts í Reykjavík hefur stóraukist undanfarin ár, bæði í tunnuna og á grenndarstöðvum. Gæði endurvinnsluefna sem flokkuð eru sérstaklega frá og sett í sérstakar tunnur eru umtalsvert meiri. Gæði þess endurvinnsluefnis (plastsins) sem sett er í sérstakar tunnur er meira en gæði efnis sem sett er með  blönduðum heimilisúrgangi.

Reykvíkingar geta því valið þjónustustig þegar kemur að því að flokka og skila til endurvinnslu og stýrt kostnaði sínum með venjum sínum. Hægt er að skipuleggja innkaup á heimili á þann veg að það valdi sem minnstum úrgangi og hægt er að nýta sér þjónustu Reykjavíkurborgar, grenndarstöðvar, endurvinnslustöðvar Sorpu og einkafyrirtæki sem bjóða upp á endurvinnslutunnur.. 

Tengill:

Reykjavík - hirða úrgangs

Reykjavík - flokkun úrgangs

Morgunblaðið - fréttin 8.8.18

Minnisblað

Panta tunnur undir endurvinnsluefni