Álagningarseðlar fasteignagjalda ekki sendir í pósti

Stjórnsýsla Fjármál

""

Álagningar- og breytingarseðlar fasteignagjalda í Reykjavík 2020 verða aðeins birtir á vefsíðunum island.is og Rafrænni Reykjavík á árinu 2020.

Álagningar- og breytingarseðlarnir verða ekki sendir í pósti í samræmi við breytingu sem gerð var á lögum nr. 4/1995 sem tók gildi 1. janúar 2019, en þá er sveitarstjórn heimilt að senda tilkynningu um álagningu fasteignaskatts rafrænt.

Á vef Reykjavíkurborgar undir Mínar síður munu fasteignaeigendur geta skoðað álagningarseðil fasteignagjalda eftir 27. janúar 2020 og alla breytingarseðla þar á eftir. Þar geta þeir einnig skráð sig í boðgreiðslu fasteignagjalda og gefið upp reikningsnúmer ef til endurgreiðslu kemur,  óskað eftir að fá senda greiðsluseðla fyrir fasteignagjöldum þar sem þeir verða, líkt og áður, ekki sendir til greiðenda, 18-77 ára. Einnig er hægt að senda þar inn erindi vegna fasteignagjalda.

Fasteignagjöld ársins 2020, yfir 25.000 kr., greiðast með níu jöfnum greiðslum á gjalddögum 1. febrúar, 2. mars, 4. apríl, 3. maí, 1. júní, 5. júlí, 2. ágúst, 1. september og 3. október.

Gjalddagi fasteignagjalda undir 25.000 kr. er 1. febrúar. Fasteignagjöld í Reykjavík verða innheimt í netbönkum. Fasteignaeigendum er jafnframt bent á beingreiðslur hjá öllum bankastofnunum og boðgreiðslur af greiðslukortum.

Nánari upplýsingar og aðstoð má fá með því að senda fyrirspurn á netfangið upplysingar@reykjavik.is eða í síma 411 1111.