Akstur hópbifreiða um miðborgina

Samgöngur

""

Rútuumferð hefur aukist jafnt og þétt á götum Reykjavíkurborgar á undanförnum árum og hefur verið brugðist við því með sérstökum reglum. Haustið 2015 setti Reykjavíkurborg reglur um að rútur yfir átta metra mættu ekki keyra um á tilteknum svæðum í borginni. Gert var ráð fyrir að þessar reglur yrðu endurskoðaðar og nú er stefnt að því að nýtt fyrirkomulag taki gildi 15. júlí 2017.

Nýju reglurnar eru tillaga stýrihóps sem mótaði þær eftir samráð við Íbúasamtök miðborgar, Miðborgina okkar, Samtök ferðaþjónustunnar og fleiri hagsmunaaðila. Bannsvæði er stækkað en á móti er lagt til að safnstæðum fyrir hópbifreiðar verði fjölgað. Stefnt er að því að reglurnar taki gildi 15. júlí og verði endurskoðaðar seinna á árinu í ljósi reynslu íbúa og hagsmunaaðila. Innheimt verður gjald af safnstæðum hópbifreiða til að standa straum af stofn- og rekstrarkostnaði þeirra og af því tekjutapi sem Bílastæðasjóður verður fyrir vegna stæða í borgarlandi sem fara undir safnstæði.

Markmið borgaryfirvalda er að tryggja að samlíf miðborgarbúa, ferðaþjónustunnar og gesta borgarinnar verði eins og best verður á kosið.

Akstursleiðir

Akstursleiðir hópbifreiða með ferðamenn taka mið af því aðalgatnakerfi og akstursleiðum almenningssamgangna sem skilgreindar eru í Aðalskipulagi Reykjavíkur 2010- 2030. Akstursskipulag rútufyrirtækja verður nú einfaldað auk þess sem dregið verður úr ónæði af rútuumferð og stuðlað að auknu umferðaröryggi í miðborginni.

Safnstæði

Eins og sjá má á skýringarmynd verður miðað við að hópbifreiðar með ferðamenn aki einungis um valdar götur þar sem safnstæðum hefur verið komið fyrir eða verður komið fyrir. Ekið verður upp Eiríksgötu og niður Njarðargötu, upp Ingólfsstræti og Hverfisgötu. Ekið verður norður Hofsvallagötu og austur Túngötu og Vonarstræti. Umferð hópbifreiða verður heimil í báðar áttir á öðrum akstursleiðum sem sýndar eru á myndinni.

Safnstæðum fyrir hópbifreiðar verður fjölgað, bæði á núverandi stöðum auk þess sem nýjum staðsetningum verður bætt við. Safnstæði við Hverfisgötu, Vonarstræti og Eiríksgötu verða staðsett í samræmi við akstursstefnur hópbifreiða. Hópbifreiðar, sem ekki mega aka innan bannsvæðis, verður heimilt að nota safnstæðin. Til að tryggja rétta notkun verða núverandi og ný stæði merkt með skýrum hætti.

Bannsvæði

Bannsvæðið verður stækkað frá Lækjargötu og vestur að Ægisgötu og afmarkist af Tryggvagötu og Túngötu/Suðurgötu/Vonarstræti að sunnanverðu. Umferðabannið sem tekur gildi 15. júlí á við um:

  • Allar hópbifreiðar. Samkvæmt umferðarlögum er hópbifreið, bifreið sem ætluð er til flutnings fleiri en átta farþega, einnig þótt bifreiðin sé jafnframt ætluð til annarra nota.
  • Aðrar bifreiðar yfir 8 metrar að lengd.
  • Sérútbúnar bifreiðar, sbr. 9. gr. laga um farþegaflutninga og farmflutninga á landi nr. 28/2017. Átt er við sérútbúnar bifreiðar, t.d. til fjallaferða, enda þótt slíkar bifreiðar rúmi færri farþega en níu. Einungis er átt við bifreiðar sem notaðar eru í atvinnurekstri í tengslum við þjónustu við ferðamenn. 

Algeng aðgerð víða um heim

Hér er ekki um einsdæmi að ræða heldur hafa borgaryfirvöld víða um heim hert reglur um akstur bifreiða í miðborgum, til að minnka mengun, bílaumferð og þrengsli. Enda hefur ferðamannaiðnaðurinn vaxið ört síðustu áratugi og er einn stærsti atvinnuvegur í heiminum í dag.
 

Tenglar

Skýrsla stýrihóps