Áhrif loftslagsbreytinga á hafið | Reykjavíkurborg

Áhrif loftslagsbreytinga á hafið

föstudagur, 16. nóvember 2018

Velkomin á fyrirlestur Hrannar Egilsdóttur þriðjudaginn 20. nóvember um áhrif loftslagsbreytinga á hafið þar sem súrnun sjávar verður í brennidepli

  • Fyrirlesturinn verður í Siglunesi í Nauhólsvík
    Fyrirlesturinn verður í Siglunesi í Nauhólsvík

Frá því iðnvæðing vesturlanda hófst fyrir 250 árum hafa orðið gríðarlegar breytingar á magni koltvíoxíðs (CO2) í andrúmslofti jarðarinnar. Eftir því sem iðnvæðingin hefur orðið kraftmeiri og útbreiddari hefur þetta magn aukist hraðar. Ein afleiðing þessara breytinga er súrnun sjávar sem er ekki síður alvarleg þróun en hlýnun jarðar.

Dr. Hrönn Egilsdóttir mun kynna í fyrirlestri þriðjudaginn 20. nóvember kl. 16 í Siglunesi í Nauthólsvík hvaða áhrif loftslagsbreytingar hafa á hafið og lífríki þess. Rannsóknir Hrannar hafa m.a. beinst að þeirri ógn sem kalkmyndandi lífverum stafar af þeim umhverfisbreytingum sem eru að verða í hafinu vegna stórtækrar losunar mannkyns á koldíoxíði (CO2), sem leiðir síðan til súrnunar sjávarins og lækkunar á kalkmettun í sjó.

Hluti doktorsverkefnis hennar felst í rannsóknum á því hvort og hvernig súrnun sjávar við Ísland gæti breytt dreifingu kalkmyndandi samloka og snigla. Flestar tegundir innan beggja hópa mynda skel úr aragóníti en langtímamælingar á CO2 hafa gefið góðar upplýsingar um súrnun sjávar í Íslandshafi og í Irmingerhafi. 

Súrnun sjávar og lífríkið

Súrnun sjávar getur haft áhrif á ýmis lífeðlisfræðileg ferli í lífverum en dýr og þörungar sem mynda kalk eru í mestri hættu vegna þess hve kalkmettun sjávar (ΩCaCO3) er nátengd sýrustigi sjávar. Mikill fjöldi tegunda í hafinu myndar kalk og koma kalkframleiðandi lífverur við sögu í flestum fæðukeðjum ásamt því að byggja upp búsvæði fyrir fjölda annara lífvera og má þar helst nefna kóralrif og rauðþörungabreiður.

Erindi Dr. Hrannar er  hluti af umhverfisfræðslu í tengslum við Bláfánavottun Ylstrandarinnar í Nauthólsvík. Það er haldið í Siglunesi í Nauthólsvík. Nauthólsvegi 104.

Viðburður á facebook

Öll velkomin!

Tengill

Heimildarmynd um súrnun sjávar