Áhrif listnema á Droplaugarstaði

Velferð

""

List- og hönnunarnemar LHÍ unnu verkefni sérstaklega fyrir hjúkrunarheimilið Droplaugarstaði með aðstoð og innleggi frá fulltrúum starfsfólks, aðstandendum og íbúum á heimilinu.

Nemendur LHÍ unnu sex ólíkar hugmyndir sem hafa áhrif á umhverfi og menningu á Droplaugarstöðum. Nemendurnir komu með hugmyndir að hönnun rýma í húsinu þannig að það skapi jákvæðar breytingar í samfélagi heimilisins.

Verkefni listnemanna kallast Nánd, Fiskisaga, Lífs leið, Plöntuhótelið Dropi, Skynjun, VIT og VOR.

Nánd – andstæða einmanaleika er nánd. Listnemarnir vildu skapa vettvang fyrir nánd og vinskap og útbjó hópurinn spilastokk með alls konar spurningum sem gætu orðið upphafið að spjalli milli einstaklinga. Með stokknum mátti finna kveikju að umræðu þar sem fólk deilir reynslu sinni, skoðunum og draumum með öðrum.

Fiskisaga – í því verkefni söfnuðu nemendur fiskisögum byggðum á reynsluheimi íbúa. Flestir ef ekki allir Íslendingar fæddir á fyrri helmingi síðustu aldar hafa komið að útgerð eða fiskvinnslu með einhverjum hætti. Listnemar söfnuðu frásögnum fólks í mynd, hljóði og letri. Íbúum færðu þau sínar eigin fiskisögur á prenti en sögurnar verða notaðar sem kveikja að fleiri frásögnum úr hugarheimi og reynslu íbúa, aðstandenda og starfsfólks Droplaugarstaða.

Lífs leið – í Lífs leið er unnið með orðaleiki, orðarugl og orð sem áreiti. Nemendur unnu orð á segla sem bæði geta vakið umræður og einnig verið leikur að orðum. Orðaseglar eru kveikjur að því að raða saman orðum svo úr verði setningar og orðatiltæki.

Plöntuhótelið Dropi – svölum á einni hæð Droplaugarstaða er breytt í gróðurhús og þannig er náttúran færð nær íbúum, starfsfólki og gestum.

VIT -  askja með nuddolíu, nuddhring, grjónapoka, augngrímu, regnstarf, reykelsi og te getur breytt hvaða rými sem er í griðarstað slökunar og kyrrðar.

VOR, vertu með okkur -  er hugmynd að kynningarherferð sem ætlað er að vekja athygli (sérstaklega ungs fólks) á því hvað það er gefandi og áhugavert að vinna á hjúkrunarheimili. Enn fremur að opna augu fólks fyrir mikilvægi umönnunar aldraðra. Nemendur safna reynslusögum starfsmanna auk þess að búa til heimasíðu, Instagram síðu og nýta fjölbreytta möguleika miðlunar til að vekja athygli á umönnunarstörfum.

Að sögn Jórunnar Frímannsdóttur, forstöðumanns Droplaugarstaða fór verkefnið fram úr björtustu vonum. „Forsagan er skemmtileg en við Berglind Magnúsdóttir, skrifstofustjóri skrifstofu þjónustunnar heim, stóðum hér í rýminu á fyrstu hæð og vorum að velta fyrir okkur hvort ekki væri hægt að gera eitthvað skemmtilegt þar þegar Berglind kom með þá hugmynd að ef til vill væri hægt að fá arkitektanema til gera eitthvað skemmtilegt. Kannski mætti búa til frumskóg eða eitthvað annað í einu horninu. Ég greip þetta á lofti og hafði samband við arkitektadeild LHÍ með það í huga að endurhanna anddyrið eða almenningsrýmið á fyrstu hæð heimilisins en verkefni nemenda eru miklu meira og dýpri en bara rýmið og þau skilja svo mikið eftir sig fyrir starfsemina inn í langa framtíð,“ segir Jórunn.

Hún bætir því við að nemendur hafi verið mjög áhugasamir og yndislegir og gefið mikið af sér meðan á verkefninu stóð. „Það sem mest um vert er að þau skildu hvernig bæta má starfsemi Droplaugarstaða og kemur það fram í hugmyndum þeirra,“ segir Jórunn sem þakkar Massimo Santanicchia, fagstjóra arkitektardeildar LHÍ, sérstaklega fyrir að hafa tekið svo vel í fyrirspurn hennar. Jórunn er sannfærð um að verkefni af þessu tagi smitar út í samfélagið og snertir marga til langrar framtíðar.

Verkefnavinnan var unnin í áfanga Listaháskólans sem heitir TOGETHER eða saman 2019 og fjallar um félagslega hönnun og félagslega breytingu. Félagsleg hönnun snýst um að setja fólk í fyrsta sæti og að hugsa um þau áhrif sem hönnun getur haft samfélagið, jafnvel til jákvæðra breytinga.  Markmiðið með verkefninu var að styrkja samstarfið á milli mismunandi greina og mynda ný tengslanet á milli stofnanna og íbúa til að búa til jákvæð samfélagsleg áhrif.  Nemendur í áfanganum vinna saman í hópum með það að markmiði að bæta umhverfið.

Á heimsíðu TOGETHER verkefna LHÍ er hægt að kynna sér hvert og eitt verkefni Listnema betur en þau nota ólíka miðla til að skýra hvert og eitt hugmyndaverk.