Áhrif HM á umferð í Reykjavík

Samgöngur

""

Bifreiðum snarfækkaði á götum borgarinnar á sama tíma og íslenska landsliðið spilaði við Argentínu, Nígeríu og Króatíu.

Þátttaka Íslands á HM í Rússlandi hafði áberandi áhrif á bílaumferð í Reykjavík á meðan leik landsliðsins stóð. Skrifstofa samgöngustjóra og borgarhönnunar hefur umsjón með TASS skynjurum í malbikinu á Hringbraut við Njarðargötu.

Venjulega fara um 1.800 bifreiðar á klukkustund á laugardögum austur eftir Hringbraut við Njarðargötu en það gerðu aðeins 200 bílar á meðan leik Íslands og Argentínu stóð milli kl. 12 og 15 þann 16. júní.

Föstudaginn 22. júní áttust Nígería og Ísland við á vellinum og um leið dró verulega úr umferð á sama stað milli kl. 15-17. Venjulega aka þar um 2.000 bifreiðar á klukkustund en talan féll niður í 400 bíla. Umferðartoppur sem iðulega er í kringum kl. 16 á föstudögum varð að þessu sinni kl. 14.30.

Þriðjudaginn 26. júní keppti Ísland við Króatíu og það hafði einnig áhrif á umferðina milli kl. 18 og 21. Umferðartoppurinn síðdegis varð ekki fyrr en kl. 20.30 um kvöldið. Fram kemur að margir hafi verið í bænum að horfa á leikinn, í vinnunni, utandyra, í bíóum og á veitingastöðum. Fjöldi bíla datt úr 1.350 á klukkustund í 250 eftir 18 þennan dag.

Mælingar á góðviðrisdeginum í Reykjavík

Miðvikudaginn 13. júní var sérlega gott verður í Reykjavík, heiður himinn og blíða. Þetta hafði áhrif á hegðun borgarbúa og það kom fram á mælum. Í Nauthólsvík mældust 1.825 reiðhjól á stígnum en daginn eftir þegar veðrið hafði breyst aftur hjóluðu aðeins 514 þennan stíg.

Blíðviðrið hafði einnig áhrif á heimsóknir í Grasagarðinn en 13. júní fóru 1.560 inn í garðinn en aðeins 318 daginn eftir.

Það er ekki nema von að veðrið sé algengt umræðuefni meðal fólks.

Tengill

Mælingar á umferð.