Áhersla á umhyggju og virðingu fyrir yngstu börnunum

Skóli og frístund

Ráðstefna. Lof mér að leika

Fjölmennt var á árlegri ráðstefnu fyrir starfsfólk leikskóla í Reykjavík sem haldin var á hótel Nordica í morgun. Í ár var áhersla á yngstu börnin til að fylgja eftir fjölgun ungbarnaleikskóla og ungbarnadeilda hér á landi sem er í takt við það sem hefur verið að gerast á hinum Norðurlöndunum.

 „Okkur þótti mikilvægt að hafa yngstu börnin í brennidepli til að bregðast við þessari þessari þróun hér á landi og hefur verið á hinum Norðurlöndunum þar sem fæðingarorlof er einna lengst,“ segir Kristín Hildur Ólafsdóttir, verkefnastjóri sköpunar á leikskólaskrifstofu skóla-og frístundasviðs Reykjavíkurborgar. Yfir 450 voru skráð til þátttöku en ekki tókst að halda ráðstefnuna í febrúar eins til stóð vegna COVID-19. Ef heimsfaraldur hefði ekki staðið í veginum hefði rauð veðurviðvörun gert það því hún var í gildi þann dag sem ráðstefnan átti að vera.

Erindin voru ólík en höfðu þó góðan samhljóm um mikilvægi samskipta, tjáningar og málörvunar í starfi með yngstu börnunum og einnig umhyggju og virðingu fyrir börnum. Þau voru fræðileg en gáfu líka leikskólastarfsfólki verkfæri í hendurnar til að vinna með í starfi sínu.