Áhersla á málefni barna hjá ofbeldisvarnarnefnd

Velferð Mannréttindi

""

Ofbeldisvarnarnefnd Reykjavíkurborgar samþykkti á fyrsta fundi vetrarins að setja enn frekari áherslu á hagi og líðan barna sem verða fyrir ofbeldi.

Reykjavíkurborg vill gera allt til að koma i veg fyrir ofbeldi og bregðast við með ábyrgum og traustum hætti þegar það kemur upp. Á fundi nefndarinnar kom fram að yfir 16% barna verði fyrir ofbeldi.

Bergsteinn Jónsson frá Unicef, Sigríður Björk Guðjónsdóttir lögreglustjóri Reykjavíkur , Hákon Sigursteinsson, framkvæmdastjóri Barnaverndar Reykjavíkur og Hulda Björk Finnsdóttir frá félagsþjónustu Hafnarfjarðar sögðu nefndinni frá vinnu sinni með ofbeldi gagnvart börnum. Í umræðu og kynningum á fundinum kom fram hvaða úrræði stofnanir hafa í ofbeldismálum og m.a. sagði Hákon frá breyttu verklagi hjá Barnavernd Reykjavíkur en stöðugildum þar hefur fjölgað og meiri áhersla er á fræðslu, forvarnir og ráðgjöf.

Nýtt verklag, „Opinskátt um ofbeldi“ verður innleitt um alla borg og miðar af því að taka ofbeldismál fastari tökum en áður. Greina á tíðni, orsök og afleiðingar og ekki síst hvað Reykvíkurborg getur gert bæði sem stjórnvald og sem samfélag.