Áhersla á fjölbreytileika og gæði umhverfis á nýjum íbúðasvæðum

þriðjudagur, 9. desember 2014

Á nýjum íbúðasvæðum í Reykjavík verður haft að leiðarljósi að tryggja fjölbreytileika, gæði, félagslega blöndun, listsköpun og góða nýtingu á landi og innviðum. Þetta eru áherslur Reykjavíkurborgar í tengslum við ný uppbyggingarsvæði sem borgarráð samþykkti nýverið.

  • Vogabyggð og Ártúnshöfði eru meðal nýrra íbúðasvæða í Reykjavík.
    Vogabyggð og Ártúnshöfði eru meðal nýrra íbúðasvæða í Reykjavík.

Ný uppbyggingarsvæði sem hafa verið mörkuð með nýju aðalskipulagi Reykjavíkurborgar 2010 - 2030 eru sem dæmi Vogabyggð, Ártúnshöfði, Laugarnes (Kassagerðarreitur/Köllunarklettsvegur) Barónsreitur, Skeifan og lóð Ríkisútvarpsins við Efstaleiti. Svæðin eru mörg hver í blönduðu eignarhaldi með mismunandi réttindum.  Oftar en ekki er land í eigu Reykjavíkurborgar en lóða- og/eða byggingaréttur er að verulegu leyti í höndum einkaaðila. 

Samningsmarkmið  tryggja gagnsæi og gæta samræmis

Undirbúningur við skipulagsvinnu og uppbyggingaráform á einstökum svæðum eru mislangt á veg komin og voru samningsmarkmið sem borgarráð samþykkti sett fram til að tryggja gagnsæi og gæta samræmis milli svæða. „Skilgreining samningsmarkmiða leiðir til markvissari samningsgerðar og eykur líkur á að niðurstaða náist og að af uppbyggingu verði,“ segir í greinargerð með samþykktinni.

Í samningsmarkmiðum vegna nýrra uppbyggingarsvæða í Reykjavík eru dregnar fram áherslur aðalskipulags 2010 - 2030, sem eru eftirfarandi:

  • Áhersla á fjölbreytileika í stærð og gerð íbúða.
  • Áhersla á gæðasvæði og gott umhverfi.
  • Áhersla á að varðveita staðaranda og yfirbragð byggðar.

Listsköpun í almenningsrýmum og uppbygging leigumarkaðar

Einnig er lögð áhersla á að land og innviðir borgarinnar verði nýtt sem best, sem og að stofnkostnaður innviða fyrir uppbyggingarsvæði verði greiddur með fjármunum sem fást af uppbyggingunni. Þá er gert ráð fyrir að ákveðinni fjárhæð verði varið í listsköpun í almenningsrýmum á svæðinu og verði sú fjárhæð hluti af heildarstofnkostnaði innviða á viðkomandi svæði. Í allri skipulagsvinnu verður lögð áhersla á vistvænar samgöngur og að nægt rými sé fyrir gangandi og hjólandi eins og aðalskipulagið leggur áherslu á.

Gert er ráð fyrir að byggt verði upp í samræmi við Húsnæðisstefnu Reykjavíkurborgar 2020 og stuðlað að uppbyggingu leigumarkaðar og félagslegri blöndun íbúa. Stefnt verði að því að 20 - 25% íbúða í hverfum verði leiguíbúðir, stúdentaíbúðir, búseturéttaríbúðir og/eða Nýju Reykjavíkurhúsin. Einnig verði stefnt að því að Félagsbústaðir hf. hafi kauprétt fyrir allt að 5% íbúða fyrir félagslegt leiguhúsnæði.

Tengdar síður:
Húsnæðisstefna Reykjavíkur  2020.
Aðalskipulag Reykjavíkur.