Afkastamikil borhola endurnýjuð

Samgöngur Umhverfi

""

Einn stærsti bor sem hefur sést í Reykjavík um áratuga skeið er á leiðinni í bæinn og verður notaður af Veitum við endurnýjun borholu við Bolholt. Vegna umfangs verksins verður nokkuð rask á svæðinu næstu vikurnar og meðal annars þarf tímabundið að loka hjólastíg meðfram Kringlumýrarbraut milli Háaleitisbrautar og Laugavegar. Lokað verður á morgun og varir lokunin fram í miðjan október. Beðist er velvirðingar á þessari truflun en hjáleiðir fyrir gangandi og hjólandi verða vel merktar.

Borholan sem um ræðir ber hið vinalega nafn RG-20 er hún ein sú gjöfulasta sem Veitur hafa til umráða, en RG-20 hefur varmaafl sem getur hitað upp um 2000 hús á ári sem er svipaður fjöldi og er í Vestmannaeyjabæ.

Nú er svo komið að þrenging er í holunni og hrun sem veldur því að dregið hefur úr afköstum hennar og því þarf að rýma, hreinsa og fóðra holuna áður en hún verður endurvirkjuð.  Borholan er 764 metrar á dýpt, sem er á við tíu Hallgrímskirkjur. Hitastig vatnsins er 125°C.

RG-20 við Bolholt 5 er ein af tíu borholum á Laugarnessvæðinu sem er lághitasvæði og ein af átján borholum sem staðsettar eru í Reykjavík. Borað var fyrir henni árið 1963. „Hún fagnar því 57 ára afmæli í ár og er töluvert eldri en bæði Borgarstjórinn í Reykjavík og forsætisráðherra,“ segir á framkvæmdavef Veitna

Til verksins verður notaður stærri jarðbor en hefur athafnað sig á höfuðborgarsvæðinu í áratugi en það er hinn þrettán ára gamli Nasi frá Ræktunarsambandi Flóa og Skeiða. Lítið pláss er til athafna við borholuna og því er hafin vinna við að útbúa borplan undir Nasa og annan búnað tengdan honum. Hámarksþvermál borkrónu Nasa er 26″ ~ 650 mm og er bordýpt hans um 2000 m. Nasi er aðallega notaður til borana eftir köldu og heitu vatni og við borun sjótökuhola. Meðal fyrri verkefna Nasa má nefna MV-19 (822m) að Möðruvöllum í Kjós.

Tengt efni: