Afgangur tvöfalt meiri en gert var ráð fyrir | Reykjavíkurborg

Afgangur tvöfalt meiri en gert var ráð fyrir

fimmtudagur, 26. apríl 2018

Samstæða Reykjavíkurborgar skilar 28 milljarða afgangi og borgarsjóður fimm milljörðum króna
 

  • Reykjavíkurtjörn og ráðhúsið.
    Ársreikningi Reykjavíkurborgar 2017 var vísað til umræðu í borgarstjórn í dag.
  • Frá blaðamannafundi meirihlutans í Ráðhúsi Reykjavíkur.
    Borgarstjórnarmeirihlutinn kynnti niðurstöður ársreiknings Reykjavíkurborgar fyrir árið 2017 á blaðamannafundi ásamt fjármálastjóra Reykjavíkurborgar.

Samkvæmt ársreikningi Reykjavíkurborgar fyrir árið 2017 sem kynntur var í borgarráði í morgun gekk rekstur Reykjavíkurborgar afar vel í fyrra. Skilar borgin tæplega fimm milljarða afgangi. Samstæða borgarinnar var rekin með 28 milljarða hagnaði, en í henni eru B-hluta fyrirtæki eins og Orkuveita Reykjavíkur og Félagsbústaðir. A-hluti borgarinnar sem heldur utan um eiginlegan rekstur borgarinnar skilaði fimm milljarða afgangi.

Skuldir samstæðunnar, A- og B-hluta hafa farið lækkandi í mörg ár, úr 255 milljörðum árið 2011 í 193 milljarða 2017. 

Skuldahlutfall samstæðunnar án skulda Orkuveitu Reykjavíkur er 83% sem er langt innan viðmiða sem sett eru um skuldir sveitarfélaga.

„Uppgjörið sýnir að reksturinn gengur mjög vel. Við erum að skila afgangi af samstæðu og borgarsjóði sem á sér varla fordæmi. Á sama tíma höfum við verið í gríðarlegum fjárfestingum í öllum hverfum borgarinnar, lækkað fasteignagjöld og aðrar gjaldskrár, aukið framlög til mikilvægra málaflokka til muna eins og til velferðar og til leik- og grunnskóla. Metár í uppbyggingu og lóðaúthlutunum hafa m.a. gert okkur þetta kleift. Þá höfum við verið að hækka laun, bæta þjónustuna með það að markmiði að búa til borg fyrir alla,“ segir Dagur B. Eggertsson borgarstjóri.

Fjármálaskrifstofa Reykjavíkurborgar skrifar greinargerð með ársreikningi borgarinnar. Samkvæmt greinargerðinni stendur borgin vel að vígi og reksturinn er í miklum blóma. Munar þar miklu um sölu lóða og fasteigna sem voru talsvert umfram áætlanir. Er það góður mælikvarði á þær miklu framkvæmdir sem eru Reykjavík þessi misserin.

Uppgjör lífeyrisskuldbindinga

Fjármálasskrifstofa gerir að umtalsefni uppgjör borgarsjóðs á áföllnum skuldbindingum og framtíðarskuldbindingum við A-deild Brúar lífeyrissjóðs í lok árs 2017 þar sem borgin greiddi 14,6 milljarða króna. Uppgjörið hafði víðtæk áhrif á rekstur, efnahag og sjóðstreymi A-hluta og samstæðu og flestar kennitölur bera þess merki. Þannig versnaði rekstrarniðurstaða A-hluta um tæpa fjóra milljarða aðallega vegna einsskiptis uppgjörs á áföllnum skuldbindingum og veltufé frá rekstri sem hlutfall af tekjum varð 8,1% en hefði orðið 11,4% ef ekki hefði komið til uppgjörsins. Önnur sveitarfélög höfðu ekki gengið frá uppgjöri hliðstæðra skuldbindinga við Brú fyrir árslok 2017.

Veltufé frá rekstri er þó sterkt og lýsir fjármálaskrifstofa mikilvægi þess að svo verði áfram við ríkjandi efnahagsaðstæður til að hægt verði að mæta áhrifum niðursveiflu síðar meir.

Skattspor Reykjavíkurborgar

Fjármálaskrifstofa hefur reiknað út skattspor A-hluta borgarinnar á árinu en það eru þeir skattar og gjöld sem borgin greiðir til ríkisins. Þar er stærsti liðurinn tryggingagjald af launum. Borgin greiddi ríkinu tæpa 6,4 milljarða í fyrra. Í greinargerðinni er einnig tiltekið af hversu miklum tekjum borgin hefur misst vegna þeirra einhliða ákvörðunar ríkisins að leyfa fólki að nýta séreignasparnað til niðurgreiðslu á höfuðstól íbúðalána en þar hefur borgin tapað stórum upphæðum líkt og önnur sveitarfélög.

Fjárfest fyrir 15 milljarða króna

Reykjavíkurborg fjárfesti fyrir 15 milljarða króna á síðasta ári. Stærstu fjárfestingarnar voru í skólamannvirkjum en alls var framkvæmt fyrir 3,5 milljarða króna fyrir skóla- og frístundasvið í fyrra. Þar ber hæst framkvæmdir við nýjan leik- og grunnskóla í Úlfarsárdal fyrir 1,3 milljarða króna og viðbyggingu Klettaskóla fyrir 1,1 milljarð króna sem hefur verið tekin í notkun og 400 milljónir í viðbyggingu við Vesturbæjarskóla sem mun klárast á þessu ári.

Fjárfestingar í íþróttamannvirkjum og sundlaugum námu 1,5 milljörðum króna. Framkvæmdir við Sundhöll Reykjavíkur námu 800 milljónum króna en 150 milljónir króna fóru til frjálsíþróttavallar í Suður Mjódd. Nýtt gervigras var lagt á knattspyrnuvelli fyrir 200 milljónir króna.

Framkvæmdir við nýbyggingahverfi námu 1,6 milljörðum króna og tæpar 1,1 milljarður fór í umferðarmannvirki, götur og þjóðvegi. Stærstu einstöku framkvæmdirnar voru við bílakjallara við Geirsgötu, 790 milljónir króna og 490 milljónir króna í Geirsgötu og Lækjargötu.

Þá malbikaði Reykjavíkurborg fyrir 1,2 milljarða króna í fyrra.

Nokkrar tölur úr rekstri Reykjavíkurborgar A-hluti

Tekjur: 116 milljarðar króna

Gjöld: 107 milljarðar króna

EBITDA: 9,2 milljarðar króna

Eigið fé: 85,5 milljarðar króna

Veltufé frá rekstri: 9,2 milljarðar króna

Íbúafjöldi: 126.109

Ársreikningur Reykjavíkurborgar 2017

Greinargerð fjármálaskrifstofu með ársreikningi 2017

Yfirlit yfir fjármál Reykjavíkurborgar