Ævintýraleg Safnanótt | Reykjavíkurborg

Ævintýraleg Safnanótt

föstudagur, 2. febrúar 2018

Safnanótt verður haldin í kvöld 2. febrúar en þá opna fimmtíu söfn dyr sínar og bjóða upp á skemmtilega og fjölbreytta dagskrá frá klukkan 18:00 til kl 23.00. Frítt er inn á söfnin.

  • Verkinu Ekkó verður varpað á Safnahúsið við Hverfisgötu
    Verkinu Ekkó verður varpað á Safnahúsið við Hverfisgötu
  • Ýmsar byggingar á höfuðborgarsvæðinu eru nú upplýstar í einkennislitum Vetrarhátíðar
    Ýmsar byggingar á höfuðborgarsvæðinu eru nú upplýstar í einkennislitum Vetrarhátíðar
  • Ráðhúsið er komið í sparibúning Vetrarhátíðar
    Ráðhúsið er komið í sparibúning Vetrarhátíðar

Lögð verður áhersla á að bjóða upp á óhefðbundna viðburði þetta kvöld og veita gestum nýja sýn á söfnin. Íbúar og gestir borgarinnar á öllum aldri geta notið Safnanætur fram eftir kvöldi sér að kostnaðarlausu.

Dagskrá Safnanætur er stútfull af skemmtilegum viðburðum fyrir alla aldurshópa og af nógu að taka. Geimverusmiðja, skrímslasmiðja, Háskaleikur fyrir hugaða krakka, Stjörnustríðsleikur, vasaljósaleiðsögn, draugagöngur, spádómar, tónlist og ljósainnsetningar.

Klukkan 19 mun seyðfirska listahátíðin List í Ljósi varpa verkinu Ekkó (Echo) á Safnahúsið við Hverfisgötu. Verkið er eftir Nýsjálensku listamennina Samuel Miro og Delainy Kennedy sem mynda listahópinn Nocturnal (nocturnal.nz). Þetta verður magnað augnakonfekt sem enginn ætti að missa af.

Gestir Sanfanætur er bent á að notfæra sér Safnanæturstrætó þar sem hægt er að ferðast frítt á milli allra safnanna.

Á Safnanótt fer fram Safnanæturleikur. Hægt er að taka þátt í leiknum með því að svara laufléttum spurningum og safna stimplum frá mismunandi söfnum sem þú heimsækir. Þátttökublað og spurningu leiksins er hægt að nálgast á öllum söfnum sem taka þátt í Safnanótt. Þátttökublaðinu er skilað í þar til gerða kassa á söfnunum og þú gætir unnið glæsilegan vinning. Dregið verður úr Safnanæturleiknum 15. febrúar. 

Góða skemmtun!