Ævintýrahöllin í Gerðubergi, bíó, legó og dans

Skóli og frístund Menning og listir

""

Setning Barnamenningarhátíðar 2019 gekk afar vel  í Hörpu  og tóku 2700 börn þátt í setningarhátíðinni.  Áætlað er að 6500 börn hafi tekið þátt í viðburðum það sem af er hátíðinni og það er nóg eftir því dagskráin er stútfull af skemmtilegum  ævintýrum fyrir alla fjölskylduna um helgina.

Ævintýrahöllin í Gerðubergi
Í ár býður Breiðholt heim og verður Ævintýrahöllin í Gerðubergi með fjölbreytta dagskrá. Boðið verður upp á blöðrudýrasmiðju, fjölskyldujóga, jazzpúka, söngleik, tilraunaverkstæði, sirkussýningu og smiðjur. Í Gerðubergi gefst börnum færi á að fara í könnunarleiðangur á laugardaginn í sýningunni  SPOR. Leitað er að galdrinum sem felst i orkunni - kraftinum sem býr i öllu. Áhorfendum er boðið í heim þar sem orkan er allstaðar sjáanleg, heyranleg og snertanleg. Orkan í hafinu, á jörðinni, í geimnum og orkan í okkur sjálfum.
 
Bíó í Bíó Paradís býður frítt í bíó að sjá Benjamín dúfu í nýjum gæðum klukkan 12.00 á laugardaginn 13. apríl og Ronja Ræningjadóttir verður svo sýnd klukkan 12.00 sunnudaginn 14. apríl.
 
Legó skipasmiðja
Í Sjóminjasafninu verður boðið upp á Legó skipasmiðju frá klukkan 13.00-16.00 laugardaginn13. apríl.  Legósnillingurinn Jóhann Breiðfjörð er hugmyndasmiður og ráðgjafi hjá tæknideild danska leikfangafyrirtækisins LEGO ætlar að aðstoða fjölskyldur að byggja allar gerðir af skipum og bátum. Úrvalið af kubbum er stórkostlegt og í þessari skipasmiðju er ekkert sem heldur aftur af fólki nema hugmyndaflugið! Ókeypis aðgangur fyrir fullorðna í fylgd með börnum. Verið velkomin!
 
Fjölskylduhjólaævintýri með skemmtilegri leiðsögn í Breiðholti sunnudaginn 14. apríl.
Listasafn Reykjavíkur upp á skemmtilega hjólaferð með leiðsögn um útilistaverkin í Breiðholti, í samstarfi við Hjólafærni á Íslandi á sunnudaginn 14. apríl. Lagt verður upp frá Gerðubergi þar sem Ævintýrahöllin er staðsett að þessu sinni.
 
Einn ég sit og sauma - útsaumsvinnustofu með Loja Höskuldssyni.
Ásmundasalur frá klukkan 13.00 til 16.00 13. og 14. apríl. 
Loji Höskuldsson (f. 1987) er íslenskur listamaður. Í myndlist sinni kannar hann hefðbundnar og nýjar leiðir í útsaumi, tækni sem hann hefur þróað og unnið með móður sinni. Á vinnustofunni fá þátttakendur að sjá hvernig hann nálgast list sína og fá að spreyta sig á eigin verkum með aðstoð reyndra útsaumara frá Heimilisiðnaðarfélaginu. Einnig fá þátttakendur tækifæri til að prufa að flosa en það er aðferð sem Loji notast gjarnan við í verkum sínum.
 
Þjóðleikhúsið – Þitt eigið leikrit – Goðasaga
Sunnudag 14. apríl klukkan 15 – 16 og 17.00 – 18.00
Leiksýning þar sem áhorfendur ráða miklu um farmvindu sýningarinnar með fjarstýringum. Söguheimurinn er norræna goðafræðin, full af hrikalegum hetjum og stórhættulegum skrímslum. Engar tvær sýningar verða eins. Skráning fer fram í gegnum miðasölu Þjóðleikhússins.
 
The Great Gathering með íslenska dansflokknum í Kringlunni laugardag kl 13.00
Stór hópur af fullorðnum og börnum dansa saman með suð í eyrum. Hoppandi í pollum með blóðnasir; við lifum í öðrum heimi þar sem við erum aldrei ósýnileg. Hendumst í hringi, höldumst í hendur, allur heimurinn er óskýr. Kringlan er vettvangurinn fyrir The Great Gathering á Barnamenningarhátíð en verkið var fyrst sýnt á listahátíð Sigur Rósar í desember 2017. Verkið er flutt af dönsurum Íslenska dansflokksins og hópi af krökkum á aldrinum 9-18 ára.  

Kíktu á dagskrá Barnamenningarhátíðar 2019