Aðlögun barna í Vogabyggð hafin í Bakka

Skóli og frístund

Ævintýraborg í Vogabyggð

Fyrstu fimm börnin sem hafa verið innrituð í Ævintýraborg í Vogabyggð hófu aðlögun í morgun, í húsnæði leikskólans Bakka í Grafarvogi. Tíu af þeim 20 sem fengið hafa boð um pláss hafa þegið pláss en foreldrar nokkurra barna sem eru með vistun annarsstaðar hafa valið að byrja ekki fyrr en leikskólinn opnar á sínum stað í Vogabyggðinni í desember.

Opnað fyrir innritun yngri barna

Næstu fimm börn munu hefja aðlögun eftir viku og er gert ráð fyrir að hollið þar á eftir komi í byrjun október. Æskilegt er að smá tími líði á milli hópa svo að þau börn sem eru komin og starfsfólkið fái tíma til að kynnast án þess að aðlögun sé í gangi. Opnað hefur verið fyrir innritun barna sem fædd eru í maí og júní 2021 og verður því haldið áfram að bjóða pláss í leikskólanum í þessari viku.

Ragna Kristín Gunnarsdóttir leikskólastjóri segir að ágætlega hafi gengið að ráða starfsfólk í nýju Ævintýraborgina. Þegar hafa 19 verið ráðin og hafa þegar byrjað eða munu hefja störf á næstu vikum og mánuðum. Enn á eftir að ráða um tíu og er Ragna Kristín bjartsýn á framhaldið.