Aðgerðaráætlun í málefnum eldri borgara

Velferð

""

Á síðasta ári gaf Reykjavíkurborg út stefnu í málefnum eldri borgara til ársins 2017.  Í kjölfarið hefur verið gerð aðgerðaráætlun um hvernig markmiðum borgarinnar í málefnum eldri borgara verður  náð.

Reykjavíkurborg vill vera aldursvæn borg sem tekur mið af þörfum eldri borgara.  Ætlunin er að framkvæma aðgerðir sem miða að því að gera Reykjavík aðgengilega, aðlaðandi og hentuga fyrir eldri íbúa. Á þessu ári verður komið á samstarfshópi ólíkra sviða borgarinnar til að vinna að verkáætlun og kostnaðarmati stefnunnar. Því næst verða stofnaðir verkefnahópar með þátttöku hagsmunasamtaka.

Ein leið að aldursvænni borg eru reglubundnar lífskjararannsóknir og er mikilvægt að þær séu samanburðarhæfar milli ára. Slík könnun var síðast gerð 2012 og er stefnt að því að næsta könnun verði gerð árið 2016.

Velferðarsvið stefnir að því að byggja upp öflugri upplýsingaveitu um þjónustu og félagsstarf til eldri borgara auk þess að innleiða rafrænt ábendingarkerfi í félagslegri heimaþjónustu eigi síðar en árið 2015.

Lögð verður áhersla á nærþjónustuhópa og notendasamráð. Þetta þýðir þverfaglegt samstarf milli stofnana sem starfa að málefnum eldri borgara í hverfum auk þess að þróa faglega þjónustu í takt við þarfir og óskir eldri borgara.

Búið er að sameina félagslega heimaþjónustu og heimahjúkrun í Laugardal - Háaleiti en hverfið þjónustar um 40% notenda þjónustunnar. Stefnt er að því að búið verði að sameina þjónustuna í öllum hverfum borgarinnar í lok þessa árs.

Hvað þjónustu varðar er stefnt að því að auka fjölbreytni í val á mat sem í boði er heimsendur eða á félagsmiðstöðvum en auk þess verður boðið upp á sérfæði fyrir þá sem á því þurfa að halda á félagsmiðstöðvunum en þegar er hægt að velja slíkt fæði í heimsendum mat.

Efla á þjónustuíbúðir borgarinnar og brúa þannig bilið milli búsetu á eigin heimili og hjúkrunarheimila. Á árinu 2015 mun velferðarsvið leita eftir auknu samstarfi við ríkið og aðra viðeigandi aðila til að fjölga leiðum í húsnæðismálum. Einnig mun sviðið hlutast til við velferðarráðuneytið að skipa starfshóp sem geri tillögur að uppbyggingu og fjölgun hjúkrunarrýma. Samhliða verða efld matstæki til að meta þjónustuþörf og gæði þjónustunnar.

Að lokum skal markvisst unnið að því kortleggja þörf aðstandenda fyrir stuðning og ráðgjöf auk þess að leggja áherslu á þekkingu, símenntun, fræðslu og þjálfun starfsfólks í öldrunarþjónustu.

Aðgerðaráætlun í heild sinni.

Stefna Reykjavíkurborgar í málefnum eldri borgara til ársins 2017.